138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

ferðasjóður Íþróttasambands Íslands.

143. mál
[15:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrirspurnina. Ferðasjóðurinn var reyndar til umræðu fyrir viku, ef ég man rétt, en hér er hins vegar verið að horfa á úthlutunina og hvernig hún skiptist á árinu 2008. Eins og hv. þingmaður nefndi er þetta til þess að gera nýr sjóður og til hans var fyrst veitt fé árið 2007, á fjárlögum ársins 2008 námu framlög til ferðasjóðs ÍSÍ 59 millj. kr. Eins og hv. þingmaður kom inn á var gerður þjónustusamningur á milli menntamálaráðuneytis við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þar sem gert var ráð fyrir að framlag til sjóðsins mundi hækka á milli ára, yrði 30 millj. kr. árið 2007, 60 millj. kr. árið 2008 og 90 millj. kr. árið 2009. Slíkar fjárveitingar eru hins vegar ávallt háðar samþykki Alþingis og voru samþykktar 59 millj. kr. það ár sem spurt er um, árið 2008.

Ég minni á að úthlutunin miðast í rauninni við akstur eða kílómetragjald, þannig að þeir sem lengst þurfa að fara fá mestu úthlutað. Ef við horfum á þetta út frá kjördæmum fær Norðausturkjördæmi 23.607.726 kr., sem er u.þ.b. 40% úthlutunar, Norðvesturkjördæmi fær 6.919.536 kr., sem er 12% úthlutunar, Reykjavíkurkjördæmin tvö fá 8.290.651 kr. í sinn hlut, eða um 14%, Suðurkjördæmi fær 14.270.607 kr., sem eru u.þ.b. 24% úthlutunar og Suðvesturkjördæmi fær 5.911.464 kr., eða um 10% úthlutunar. Þetta er kjördæmaskiptingin. Eins og ég sagði áðan miðast úthlutunin við fjarlægðir sem viðkomandi íþróttafélög þurfa að fara milli staða.

Hv. þingmaður kom líka inn á framtíðarsýnina fyrir ferðasjóðinn. Eins og áður hefur komið fram hefur þessi sjóður fengið alveg feikilega góðan hljómgrunn hjá íþróttahreyfingunni, hjá fjölskyldum í landinu þar sem fjölskyldumeðlimir taka þátt í íþróttum. Framkvæmd úthlutunar hefur tekist vel. ÍSÍ hefur lagt mjög mikla vinnu í að hanna úthlutunarferli sem gerir ráð fyrir að þeir sem þurfa að ferðast lengst beri mest úr býtum við úthlutun úr sjóðnum. Þessi kjördæmaskipting ætti að renna stoðum undir það. Ráðuneytinu hefur borist mikil hvatning um að halda þessu verkefni áfram. Einstakir þingmenn börðust reyndar lengi fyrir stofnun þessa sjóðs og margir bera hag hans mjög fyrir brjósti og gert er ráð fyrir framlagi til sjóðsins í fjárlagafrumvarpinu 2010.

Eins og ég kom inn á áðan var gert ráð fyrir því í samningnum að framlagið 2009 mundi hækka upp í 90 milljónir en í þeim fjárlögum sem voru samþykkt þá var ákveðið að fresta þeirri hækkun en það gerir okkur hins vegar kleift að veita 57 millj. kr. í sjóðinn núna sem er ekki mikill niðurskurður, eða 5%, frá þeirri úthlutun sem er í síðustu fjárlögum, eða 60 milljónir. Það er með því minnsta sem við sjáum á þessu sviði. Ég tel að sá niðurskurður, þótt hann sé til staðar, sé samt í minna lagi sem sýnir auðvitað forgangsröðunina og sýnir mikinn vilja til að halda áfram með sjóðinn og efla hann og styrkja þannig börn, og ungmenni kannski sérstaklega, til íþróttaiðkunar til að stuðla að því að jafna aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgar, sem ég held að við getum öll verið sammála um að skipti miklu máli að gera með tækjum sem þessum.

Það er óvíst hvenær fjármunir liggja fyrir til að við getum eflt sjóðinn enn frekar en ég ítreka að viljinn stendur til þess að viðhalda honum. Við munum fljótlega fara í það verkefni með ÍSÍ að endurnýja samninginn til þess að geta haldið áfram með sjóðinn sem hefur eins og ég sagði áðan mælst vel fyrir um land allt.