138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

ferðasjóður Íþróttasambands Íslands.

143. mál
[15:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Til áréttingar, þegar ég tala um afreksfólk í íþróttum getur fólk orðið afreksfólk í fótbolta, handbolta eða hverju sem er. Ég á einfaldlega við að við þurfum að tryggja ungu fólki á landsbyggðinni jafnan rétt á við ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu til að geta blómstrað í heilbrigðu líferni. Það er hluti af samvinnuhugsjóninni að fólk geti og eigi að stunda íþróttir og heilbrigt líferni og ef svo er fyrir komið á þessum tímum að foreldrar hafi ekki möguleika á því, vegna þess að þau búa austur á landi eða norður í landi, sökum efnahags að veita börnum sínum jöfn tækifæri á við þau sem búa á suðvesturhorni landsins er illa fyrir okkur komið.

Ég er mjög ánægður að heyra þó það hvernig þessir fjármunir skiptast. Við virðumst vera að ná því takmarki að þeir staðir sem eru fjærst höfuðborgarsvæðinu og þurfa mesta fjármuni fái þá. 40% af úthlutunum sjóðsins fara til að mynda í Norðausturkjördæmi sem hefur eitt kjördæma engan snertiflöt við höfuðborgarsvæðið. Þess vegna er mikilvægt að þessir fjármunir sem eru mjög takmarkaðir renni á þá staði sem eru fjærstir höfuðborgarsvæðinu og það virðist vera að skila sér. Ég tek líka undir með hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur, þessir fjármunir eiga fyrst og síðast að renna til unga fólksins, þ.e. þeirra sem eru í skilningi laganna enn þá börn, eru ekki fjárráða, eru á framfæri foreldra sinna. Það á að veita þessu unga fólki jöfn tækifæri á við aðra til að stunda heilbrigt líferni og eiga sömu tækifæri og (Forseti hringir.) annað ungt fólk, þá sérstaklega á suðvesturhorni landsins.