138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Rangárþingi.

146. mál
[15:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég beini til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þeirri fyrirspurn hver sé staða undirbúnings að stofnun framhaldsskóla í Rangárþingi. Þannig er mál með vexti að á árinu 2006 fór fram umfangsmikil vinna um forvarnastarf í Rangárvallasýslu þar sem foreldrar, bæði mæður og feður, komu að þeim málum til að kanna hvernig best yrði spornað gegn því að börn leiddust út í einhvers konar óæskilega neyslu. Rætt var um forvarnir af ýmsu tagi. Í þeirri vinnu kom fram að besta forvörnin fælist í því að börn gætu verið lengur heima og gætu þess vegna stundað nám á framhaldsskólastigi á heimavelli. Í kjölfar þess settu sveitarstjórnir í Rangárvallasýslu saman nefnd sem vann skýrslu á vegum Atvinnuþróunarfélags Suðurlands um þetta mál. Sú skýrsla fór til þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem skipaði nefnd með fulltrúum sveitarfélaganna og fulltrúum menntamálaráðuneytisins sem áttu að fjalla um það hvort grundvöllur væri fyrir því að stofna framhaldsskóla í Rangárvallasýslu. Sú nefnd skilaði af sér skýrslu núna í maí 2009 og mig langaði að vita frá hæstv. ráðherra hvernig væri verið að vinna með þær niðurstöður sem sú nefnd komst að. Þar eru nefndir þrír kostir sem kæmu til greina, í fyrsta lagi að stofna sjálfstæðan framhaldsskóla, í öðru lagi að stofna útibú frá framhaldsskólum sem starfræktir eru á Suðurlandi og í þriðja lagi að hafa óbreytt ástand en hækka dvalarstyrki.

Sá kostur sem hefur helst verið í umræðunni heima fyrir er kostur númer tvö, þ.e. útibú frá framhaldsskóla. Við Sunnlendingar eigum þrjá öfluga framhaldsskóla, Menntaskólann að Laugarvatni, Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og eins Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum. Fulltrúar sveitarfélaganna sem sátu í upphaflega starfshópnum leituðu á fund allra þessara skóla til að kanna með vilja til samstarfs og var okkur — ég sat í þessum hópi — mjög vel tekið og mikill áhugi á því að vinna með okkur, þá sérstaklega í Vestmannaeyjum og á Selfossi.

Nú er ástand efnahagsmála þannig að maður áttar sig á því að það þarf að fara vel með fé og þá gera það allir hér. Engu að síður er mjög mikilvægt ef við horfum svolítið til framtíðar um það hvernig við ætlum að skipa hér málum og hvort við ætlum að undirbúa þetta verkefni frekar. Ég veit að það er kærkomið tækifæri fyrir hæstv. menntamálaráðherra að upplýsa okkur um það hér hvernig verði unnið með niðurstöður þessarar skýrslu. Hvaða fréttir getum við alþingismenn fært heimamönnum í Rangárþingi um það hvernig unnið er að stofnun framhaldsskóla þar?