138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Rangárþingi.

146. mál
[15:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það er ágætt og gott að finna slíkan áhuga á þessu máli sem ekki bara er bundinn við landsbyggð, heldur líka höfuðborgarsvæðið. Ég tek undir þau orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að hagur landsbyggðarinnar er sterkt höfuðborgarsvæði og hagur höfuðborgarsvæðisins er sterk landsbyggð. Ég lít á þetta sem eina þjóð í einu landi og það skipti máli í því samhengi að við horfum á þessar jöfnu aðstæður. Það skiptir líka máli að við undirbúum svona verkefni vandlega og auðvitað ber að skoða það út frá því að hugsanlega er hægt að spara í jöfnun námskostnaðar með fleiri slíkum útibúum. Það þarf að líka að skipuleggja hlutina í samvinnu við heimamenn, skoða hvernig unnt er að nýta sérstöðu svæðisins inn í slíkar deildir og hvernig unnt er að byggja slíkt nám upp í samráði við heimamenn. En ég vil ítreka það að við munum skoða þetta áfram, þessar hugmyndir sem og aðrar, ég vil bara nefna það af því að ég er nýkomin utan af landi, reyndar ekki Suðurkjördæmi en öðru kjördæmi, og það eru víðar uppi hugmyndir um slíkar framhaldsdeildir. Ég skynja það að þetta er mikið áhugaefni fjölskyldna, ungmenna og foreldra um land allt að geta fengið nám í heimabyggð sem rímar auðvitað ekki minnst við stefnu míns flokks í þessum efnum til lengri tíma, um samfellt nám í heimabyggð til 18 ára aldurs.