138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Grindavík.

147. mál
[15:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir þessa fyrirspurn sem snýr að framhaldsskóla í Grindavík. Þannig er mál með vexti að þann 12. febrúar 2009 skipaði ég nefnd til það kanna hvort grundvöllur væri fyrir stofnun framhaldsskóla í Grindavík. Aðdragandi þess var að heimamenn höfðu sett fram óskir um að þetta yrði sérstaklega skoðað og nefndu ýmis rök fyrir máli sínu en kannski fyrst og fremst ákveðin samfélagsleg rök, þ.e. styrkingu samfélagsins í Grindavík með stofnun nýs framhaldsskóla og hins vegar ákveðin félagsleg rök að nemendur ættu rétt á slíku námi í sinni heimabyggð. Það mundi búa þeim betra félagslegt utanumhald og koma jafnvel í veg fyrir brottfall úr framhaldsskólanámi þar sem nemendur gætu þá sótt námið í sinni heimabyggð.

Nefndin sem skipuð var skilaði tillögum sínum í október 2009, eða í síðasta mánuði. Þar koma fram fjórir valkostir. Í fyrsta lagi að stofna sjálfstæðan framhaldsskóla. Þar gildir það sama og kom fram í svari við fyrirspurn um nýjan framhaldsskóla í Rangárþingi, að nemendafjöldi á svæðinu gefur kannski ekki tilefni til stofnunar sjálfstæðs skóla ef við horfum á þetta eingöngu út frá nemendafjölda. Er þar líka vitnað í þá skýrslu sem ég nefndi í fyrra svari mínu, frá 2006, sem gerð var í ráðuneytinu þar sem ekki var talinn vera grundvöllur fyrir stofnun framhaldsskóla í Grindavík miðað við nemendafjölda á svæðinu. Það er sem sagt niðurstaða númer eitt.

Í öðru lagi telur nefndin að til greina komi að Grindavíkurbær stofni framhaldsskóla og hann verði þá í eigu Grindavíkurbæjar og bærinn geri þjónustusamning við ráðuneytið um rekstur hans og ábyrgist rekstur hans. Grindvíkingar komu fram með þessa leið og telja að með henni megi ná fram ýmsum áherslum í nýlegum lögum um framhaldsskóla, svo sem að tengsl framhaldsskóla við grunnskóla verði sveigjanleg, dregið verði stórlega úr miðstýringu á námsframboði og námskrárgerð.

Í þriðja lagi telur nefndin koma til greina að stofna útibú í Grindavík frá framhaldsskóla með fjölbreytt námsframboð. Þar væri nærtækt að leita til Fjölbrautaskóla Suðurnesja um stofnun slíks útibús, en það mætti eins hugsa sér að leita til annarra skóla eftir áhuga heimamanna á hvers konar námsframboð ætti að vera þar í boði og þar hafa aðrir kostir líka verið nefndir. Þar gæti verið um að ræða kennslu í almennum greinum framhaldsskólans á fyrstu tveimur árum hans. Fulltrúar Grindvíkinga í nefndinni lögðu áherslu á að slíkt útibú yrði þá sem sjálfstæðast ef til þess kæmi.

Í fjórða lagi er nefnt óbreytt ástand í skýrslunni og bent á að Grindvíkingar eiga aðild að Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem er mjög vel búinn skóli og býður fram fjölbreytt nám, bæði verklegt og bóklegt. Daglegur akstur er til skólans og fjarlægðin um 25 km akstur tekur um 20 mínútur. Þessi möguleiki hugnaðist hins vegar fulltrúum Grindavíkurbæjar ekki sérstaklega vel sem hafa lagt mikla áherslu á það að fá þetta nám inn í bæjarfélagið.

Eins og við höfum rætt hér áður eru ýmis rök með þessu sem snúa að námi í heimabyggð til 18 ára aldurs, breyttum forsendum, hag fjölskyldnanna og jöfnum tækifærum barna, en síðan skiptir einmitt máli að við skoðum fjölbreytni námsins sem er í boði og þar spili inn í verk-, starfs- og listnám eins og ég hef hér áður nefnt. Við munum hins vegar skoða þessa skýrslu eins og hinar sem við nefndum hér áðan og ég ætla svo sem ekki að fara að telja upp hin efnahagslegu rök sem skipta máli, við verðum auðvitað að hafa vaðið fyrir neðan okkur áður en við ráðumst í framkvæmdir en hins vegar tel ég skýrsluna varpa ljósi á ýmsa möguleika sem er áhugavert að skoða og við erum tilbúin að skoða áfram í ráðuneytinu. Þar eru þessar fjórar leiðir nefndar, ein er um óbreytt ástand en þrjár leiðir sem boða breytingar og við erum tilbúin að skoða þær leiðir áfram í ráðuneytinu og stefnum á að gera það núna í vetur.