138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

sameining rannsóknarnefnda samgönguslysa.

141. mál
[18:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur boðað þá hugmynd að sameina svokallaðar rannsóknarnefndir samgönguslysa í eina nefnd. Í dag er um að ræða þrjár nefndir, í fyrsta lagi rannsóknarnefnd sjóslysa, í öðru lagi rannsóknarnefnd umferðarslysa og í þriðja lagi rannsóknarnefnd flugslysa.

Hugmynd hæstv. ráðherra er að þessar nefndir verði sameinaðar í eina rannsóknarnefnd, rannsóknarnefnd samgönguslysa, frá og með 1. janúar nk. Markmiðið er að reyna að efla og bæta slysarannsóknir á Íslandi með það að leiðarljósi að auka öryggi í samgöngum. Enn fremur er leitast við að ná fram hagræðingu og efla um leið rannsókn samgönguslysa og styrkja starfsmenn annars mjög fámennra nefnda í einstökum slysaflokkum svo þeir hafi stuðning og styrk hver af öðrum við stærri rannsóknir. Þetta eru þau markmið sem gengið er út frá við þessa vinnu sem boðuð hefur verið og kynnt á opinberum vettvangi, eins og allir vita.

Ég ætla ekki að velta mjög mikið fyrir mér þessari nýju skipan mála. Það er hlutur sem bíður frekari umræðu. Þó vil ég vekja athygli á því að Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur sent hæstv. ráðherra bréf þar sem kemur fram að félagsmenn hafa nokkrar áhyggjur af þessari nýbreytni og telja að ef ekki ríkir sátt um lagaumhverfi sem varðar rannsóknir flugslysa geti það leitt til þess að það dragi úr trausti og samstarfsvilja flugmanna til að tjá sig við rannsóknarnefndina og geti haft stórskaðleg áhrif á framkvæmd flugslysarannsóknir, þar á meðal flugöryggi.

Hins vegar háttar svo til varðandi þessar nefndir núna að rannsóknarnefnd sjóslysa hefur á undanförnum árum, frá því að gerðar voru breytingar á starfsemi nefndarinnar, starfað í Stykkishólmi. Þar er í raun og veru starfsstöð rannsóknarnefndar sjóslysa og hefur að mínu mati tekist mjög vel til um þá starfsemi. Við vitum að þar hefur vel verið staðið að málum hjá þeim starfsmönnum sem þar hafa unnið og sömuleiðis hefur starfsemin verið studd mjög rækilega af rannsóknarnefndinni sjálfri þannig að ég hygg að hægt sé að segja að þau mál séu í góðu horfi. Þess vegna hef ég m.a., og líka með hliðsjón af því að hér er um byggðapólitískt mál að ræða, leyft mér að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann hafi í hyggju að færa starfsemi rannsóknarnefndar sjóslysa frá Stykkishólmi í tengslum við boðaðar hugmyndir um sameiningu rannsóknarnefndar umferðarslysa, flugslysa og rannsóknarnefndar sjóslysa. Í annan stað vil ég spyrja hvort hæstv. ráðherra telji það koma til greina að höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar, ef af verður, verði utan höfuðborgarsvæðisins.