138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

snjóflóðavarnir í Tröllagili.

142. mál
[18:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Þetta svar veldur miklum vonbrigðum og ráðherrann talar hér fyrir einhverri stefnubreytingu þegar kemur að fjármögnun ofanflóðasjóðs því að árlegt gjald er lagt á allar brunatryggðar húseignir í landinu til þess að standa straum af rekstri sjóðsins og framlögum í hann. Ég held við verðum líka að taka tillit til þess að það er ekki langt síðan boðað var að farið yrði í þessar framkvæmdir. Það eru fjármunir í sjóðnum, í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 1.400 millj. kr. í árlegar tekjur af ofanflóðagjaldi. Hæstv. ráðherra boðar þá að hlutdeild sjóðsins í þessu gjaldi muni minnka allverulega, sem er verulegt áhyggjuefni því að vítt og breitt um landið er þörf á því að fara í framkvæmdir sem þessar og nú standa m.a. yfir framkvæmdir í Ólafsfirði, sem voru brýnar í þessum efnum.

Ég lýsi því yfir með hliðsjón af forsögu málsins og mikilvægi þess að hér er um öryggishagsmuni byggðarinnar að ræða. Þetta er framkvæmd sem fjármunir eru til fyrir samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og er sem mikil þörf er fyrir vegna atvinnulífshagsmuna á staðnum. Því hvet ég hæstv. ráðherra til þess að hún beiti sér fyrir því að hraða þessum framkvæmdum, eins og hún hefur sagst ætla að gera. Gert er ráð fyrir miklum fjármunum í þennan sjóð. Ég hvet hæstv. ráðherra að flýta þessum framkvæmdum með hagsmuni íbúa í Neskaupstað og Norðfirði í huga. Það er búið að skapa gríðarlegar væntingar á svæðinu af hlutaðeigandi stjórnvöldum og það er ljótur leikur að bregðast þeim því að þessu var lofað eftir hrun og í raun og veru hafa forsendur ekki breyst svo ýkja mikið síðan þá.