138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

snjóflóðavarnir í Tröllagili.

142. mál
[18:33]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og þingmaðurinn bendir réttilega á er þarna um að ræða eyrnamerktar fjárhæðir sem eru ætlaðar til þess að uppfylla ákvæði laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Hlutdeild sjóðsins rýrnar ekki að því er varðar ráðstöfun þessara eyrnamerktu fjárhæða en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu þarf að draga úr því fjármagni sem ætlað er til ofanflóðavarna í fjárlögum ársins. Við gerum auðvitað ráð fyrir því að halda áfram þessum mikilvægu verkefnum sem heyra undir lagasetninguna. Við hægjum nokkuð á þeim til þess að koma til móts við þær kröfur sem heyra undir gerð fjárlaga og ríkisfjármála. Sú sem hér stendur hefur allar væntingar og allan metnað til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem þingmaðurinn nefnir hér, bæði þá augljósu hættu sem stafar af mögulegum ofanflóðum og snjóflóðum, en ekki síður því atvinnuástandi sem er úti í hinum dreifðari byggðum. Það er því ekki pólitískt áhugamál umhverfisráðherra að draga úr möguleikum ofanflóðasjóðs eða hægja á þessum framkvæmdum heldur er dregið úr þeim vegna samdráttar í ríkisrekstri almennt.