138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

eyðing refs.

151. mál
[18:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með að hæstv. ráðherra ætlar að móta einhverja stefnu til langrar framtíðar í þessum efnum. En ég tel það algjörlega útilokað að við ætlum að hætta greiðsluþátttöku ríkisins á meðan sú vinna fer fram, vegna þess að mörg sveitarfélög, fámenn sveitarfélög með litlar útsvarstekjur, eru að sligast í dag undan þessu. Við þurfum að fara að svara þeirri spurningu: Ætlum við þá að minnka allverulega veiði á ref í landinu? Ég er alinn upp á slíkum slóðum, í tengslum við æðarvarp þar sem maður hefur horft upp á það hvernig þessi skepna, þetta rándýr, getur leikið heilu æðarvörpin ef landeigendur standa sig ekki í stykkinu að verja lönd sín. Því er um stórmál að ræða.

Ég vil hvetja ráðherrann til að sýna velvilja í okkar garð, þeirra sem tala fyrir því að skynsamlegt sé að halda áfram að halda þessu rándýri í skefjum. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að þeir þingmenn sem hér hafa talað úr mörgum flokkum hafa staðið mjög einbeittir að því í umræðunni að Alþingi Íslendinga eigi að halda áfram að setja fjármuni í eyðingu refs og minks. Því það er nú einu sinni þannig að eftir að ríkisstjórnin hefur lagt fjárlagafrumvarp fram er það komið í hendur alþingismanna. Ég hef alveg fulla trú á því að þverpólitísk samstaða verði um það á Alþingi og ég veit að herra forseti er sammála mér að við höldum áfram að sporna við því að ref fjölgi ótæpilega hér á landi og að við leggjum undir okkar dýrmæta fuglalíf sem er eitt aðaleinkenni íslenskrar náttúru. Ég hélt að hæstv. umhverfisráðherra hefði dálæti á íslenskri náttúru og vildi viðhalda íslenskri náttúru. Því lofa ég hæstv. ráðherra stuðningi við að halda jafnvægi í lífríki landsins (Forseti hringir.) og stuðla þannig að fallegri íslenskri náttúru og er ánægður með þann samhljóm sem kemur fram í þessari umræðu.

(Forseti (ÁÞS): Forseti hefur ekkert tjáð sig um þetta umrædda mál enn sem komið er.)