138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

eyðing refs.

151. mál
[18:51]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er rétt hjá málshefjanda, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, að ég stend með náttúrunni og þó að hann hafi kosið að fara með himinskautum í tilþrifum í síðustu setningum sínum þá er það nú ekki svo að dagar íslenskrar náttúru séu taldir hér með þó það kunni að virðast svo með málflutningi hans hér í lokin. Ég virði honum það til vorkunnar að það var komin svona ákveðin stemning hér í salinn og klukkan að verða sjö.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi, en var ekki við upphaf umræðunnar, að það væri lítill sparnaður og virðisaukaskatturinn yrði hugsanlega meiri en sá sparnaður sem af þessu hlýst. Af því tilefni vil ég gjarnan nefna að staðan árin 2005, 2006, 2007 og 2008 er þannig að það er umtalsvert hærri upphæð sem ríkið leggur fram heldur en innheimtist í virðisaukaskatti. Þær tölur sem hafa verið umræddar í fjölmiðlum eru dálítið umdeilanlegar getum við sagt þar sem hlutfall framlags ríkisins vegna refaveiða er um og innan við 20% af kostnaði sveitarfélaganna en ekki helmingur eins og lögin gefa möguleika á en það er vegna þess að sum sveitarfélögin gera betur við veiðimenn sína og borga jafnvel akstur.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talaði um kommissara í ráðuneytinu. Með fullri virðingu fyrir starfsmönnum stjórnsýslunnar þá held ég að það sé nú þannig að eðlilegt sé að tala hér með fullri virðingu um fólk sem er að vinna heiðarlega sína vinnu.

Ég er sammála hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni varðandi menningarlega arfleifð og sérþekkingu á því að ganga til grenja o.s.frv., ég þekki þá umræðu og mér finnst hún skipta máli.

Það sama vil ég segja um orð Ásmundar Einars Daðasonar varðandi mikilvægi þess að endurskoða þetta skipulag. Ég held að við einhendum okkur í það verkefni.