138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

skattatillögur ríkisstjórnarinnar.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Vissulega erum við hér að taka upp þriggja þrepa skatt og það hefur lengi verið við lýði á Norðurlöndunum. Við erum því að færa okkur í þá átt en það vantar töluvert mikið upp á að við séum nálægt því kerfi og kannski viljum við ekki taka allt í því kerfi upp. Þeir eru til að mynda með miklu hærri skatta en við. Við erum að tala um að fara hæst upp í 46% með útsvari en ef ég man rétt er skatthlutfallið í Danmörku um 58%. Persónuafslátturinn hækkar úr 113 þús. í 119 þús. og ég vil rifja upp fyrir hv. þingmann að lengst af á góðæristímunum 1995–2006 skilaði Sjálfstæðisflokkurinn ekki hækkun á persónuafslættinum eins og bar að gera með þeim afleiðingum að skattbyrði lágtekjufólks og meðaltekjufólks varð miklu hærri og skattarnir komu miklu betur út fyrir þá sem mest höfðu. Þannig er nú sagan. Ég hygg að slegið hafi verið met í skattlagningu og skattahækkunum á þessum tíma borið saman við önnur lönd þar sem skattbyrði lágtekjufólks og meðaltekjufólks var mjög há. Þetta eru staðreyndir málsins.

Varðandi samsköttunina. Miðað við þau þrep sem þarna eru sett upp er hæsta þrepið 6% hækkun plús náttúrlega það sem kemur undir 2,9%. Það á að heimila að flytja á milli niður í lægra þrepið þegar aðeins er ein fyrirvinna og ég held að það sé alveg nægjanlegt að gera það með þeim hætti. Vissulega er því tekið tillit til samsköttunar. Ég held, virðulegi forseti, að þær skattatillögur sem hér hafa verið settar fram skili miklu meira réttlæti og jafnræði í skattkerfinu en (Forseti hringir.) verið hefur á mörgum umliðnum árum.