138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

skattatillögur ríkisstjórnarinnar.

[10:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég spyr um tvö atriði. Annað varðar samsköttun hjóna. Ég skil hæstv. forsætisráðherra þannig að það verði dregið mjög úr möguleikum hjóna til þess að njóta samsköttunar. Fram hafa komið flóknar útskýringar sem erfitt er að leggja mat á enda engar reglur komnar fram eða útfærðar hugmyndir. Hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa núna hvor í sínu lagi gert grein fyrir því að það eigi að gera tilraun til þess að tryggja áfram einhverja samsköttun en niðurstaðan er skýr í mínum huga: Það dregur mjög úr samsköttunarmöguleikum hjóna.

Varðandi persónuafsláttinn. Þessi ríkisstjórn er að afnema vísitölutengingu persónuafsláttar. Það dugar ekki fyrir hana að vísa til þess sem gerðist fyrir árið 2006. Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins var persónuafsláttur tengdur þróun neysluverðsvísitölu. Þessi ríkisstjórn er að afnema þá tengingu, það kom fram í fjárlagafrumvarpinu, og sú breyting stendur. Sjálfstæðisflokkurinn hækkaði skattleysismörk um (Forseti hringir.) 18 þús. kr. um síðustu áramót. Þessi ríkisstjórn ætlar að gera það núna um 6 þús. kr. Eftir stendur spurningin: Ætlar ríkisstjórnin að standa við (Forseti hringir.) afnám tengingar persónuafsláttar við vísitölu?