138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

skattatillögur ríkisstjórnarinnar.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ef ég man rétt var það ekki fyrr en Samfylkingin fór í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að [Frammíköll í þingsal.] persónuafslættinum var skilað að fullu. Það hafði ekki verið gert áður, það er alveg ljóst. Ég held að það sé mjög gott að halda því til haga og ég held að það væri góð lesning fyrir hv. formann Sjálfstæðisflokksins að fara yfir skattatillögur Sjálfstæðisflokksins á árunum 1995–2007. (Gripið fram í.) Það er ekki falleg lesning.

Varðandi samsköttunina held ég að það verði að fara svolítið varlega í að hafa fulla samsköttun á milli hjóna og skoða hvaða afleiðingar það getur haft. Það gæti t.d. orðið til þess að konur færu ekki eins mikið út á vinnumarkaðinn og raun ber vitni. Staðreyndin í þessu er að um er að ræða að persónuafsláttur er að fullu millifæranlegur milli hjóna og það er verið að tala um að í efsta skatthlutfallinu megi færa hluta yfir í neðra þrepið. Það er verið að útfæra það.

Ég tel líka að það sé töluverður ávinningur í þeirri stöðu sem við erum nú að skattur á tekjur undir 270 þús. lækkar (Forseti hringir.) að verulegu leyti. Það er verulegur ávinningur sem ég held að hv. þingmaður (Forseti hringir.) ætti að muna og halda til haga. Það er líka afrek að skila töluverðum hækkunum á skattleysismörkunum á þessum tímum.