138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

skattahækkanir og skuldir heimilanna.

[10:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú stendur til að hækka skatta víða þar sem svigrúm til slíks er ekkert. Staða heimilanna ætti loksins að vera orðin ríkisstjórninni kunn og staða fyrirtækja í landinu er þannig að a.m.k. 2/3 hlutar þeirra eru í verulegum vandræðum og sá þriðjungur sem eftir er í mikilli hættu á því að lenda í vandræðum. Á þessum tíma er verið að auka gríðarlega álögur bæði á heimilin og fyrirtækin og ekki síst verið að eyðileggja þá sprota sem þó eru að myndast við þær aðstæður sem nú eru uppi, t.d. í ferðaþjónustu og íslenskum matvælaiðnaði. Það er sem sagt ráðist gegn sprotunum. Þessu má líkja við að eftir hörmungar sé tekin ákvörðun um að slátra þeim mjólkurkúm sem uppi eru standandi og senda síðan kjötið út sem glaðning til að friðþægja andstæðinga okkar í útlöndum.

Þar að auki hafa þessar skattahækkanir gríðarlega mikil óbein áhrif, til að mynda hækka þær vísitölu verðlags og þar með skuldir heimila og fyrirtækja. Enn ræðst ríkisstjórnin í aðgerðir sem hækka skuldirnar og þar af leiðandi auka á hinn eiginlega vanda Íslands núna. Tvennt gerist samtímis: Það er verið að brjóta niður þær stoðir sem þó voru sterkar og gátu skapað verðmæti og það er verið að auka skuldabyrðina í þessari mestu skuldakreppu sem Ísland hefur gengið í gegnum og er líklega einhvers konar heimsmet.

Því er spurningin til hæstv. forsætisráðherra: Verður í framhaldi af þessu ekki að gera meira til að leiðrétta lán heimila? Þar hefur reyndar ekki verið gerð nein leiðrétting heldur frestun. Er ekki augljóst að þessar gríðarlegu skattahækkanir og auknu álögur á allan hátt valda því að nú þarf aftur að huga að því hvernig má koma til móts við heimilin og fyrirtækin með því að draga úr greiðslubyrðinni? Það virðist ljóst að þær standa ekki lengur undir því. Er ásættanlegt að ganga þennan veg til þess eins að geta greitt sem nemur upphæðinni í vexti til Breta og Hollendinga?