138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

skattahækkanir og skuldir heimilanna.

[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það væri góð tilbreyting ef hv. þingmaður kæmi einu sinni í ræðustól til að lýsa því hvernig hann vill taka á þeim gríðarlega halla sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að ná hallanum niður um 180–200 milljarða á örfáum árum, (Gripið fram í: Sjálfstæðismenn …) við erum að fara ákveðna leið til þess og gerum það með því að jafna byrðarnar niður á eins réttlátan hátt og við getum.

Þegar hv. þingmaður segir að við séum að drepa niður atvinnuvegina með þessum leiðum sem við erum að fara þá er það rangt. Hvað erum við að gera varðandi sprotafyrirtækin? Liggur ekki fyrir þinginu frumvarp um að koma með skattaívilnanir vegna sprotafyrirtækja? (Gripið fram í.) Ég heyri í forsvarsmanni atvinnulífsins eftir að við höfum kynnt þessa tillögu sem var unnin í mjög góðu samráði við Samtök atvinnulífsins. Ég heyri að ferðaþjónustan hefur ekki mjög hátt enda var farin mjög mild leið gagnvart henni þótt vissulega séu alls staðar álögur.

Af því að hv. þingmaður nefndi vísitöluáhrifin þá var farið í neysluskattana og þær breytingar sem óhjákvæmilegt var að fara í til að vísitöluáhrifin yrðu sem minnst á heimilin. Ég held að ef allrar sanngirni er gætt hljóti menn að sjá það. Við erum að tala um 0,2% vísitöluáhrif núna um áramótin og síðan verða þau sennilega 0,85% þegar neysluskattabreytingarnar eru komnar inn að fullu.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki þurfi að gera meira fyrir heimilin og fyrirtækin eftir að þetta liggur fyrir. Við í ríkisstjórninni veltum fyrir okkur á hverjum einasta degi hvað sé hægt að gera betur í þessu þjóðfélagi, bæði fyrir fyrirtækin og einstaklingana. (Gripið fram í.) Ég spyr: Er hægt að gera betur í þessu ástandi þar sem við þurfum að taka 70 milljarða í skatta á tveimur árum? Ekki var hjá því komist að gera það, þó með þeim hætti að fólk með 270 þús. kr. og undir ber lægri skatta en það gerði áður. (Gripið fram í.)