138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

fasteignamarkaðurinn.

[10:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Því má halda fram að í þessari ömurlegu stöðu sem íslenska þjóðarbúið er þurfi að ráðast í a.m.k. þríþættar aðgerðir. Það þarf að afla tekna, það þarf að minnka útgjöld en það þarf líka að örva efnahagslífið, breikka skattstofnana eins og það er kallað. Það þarf að koma hlutabréfamarkaðnum af stað og ekki síst þarf að koma fasteignamarkaðnum af stað.

Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra: Hvaða aðgerðir sér ríkisstjórnin fyrir sér til að koma fasteignamarkaðnum af stað? Ég held að fátt mundi gagnast íslenskum heimilum betur en að reyna að þíða þennan markað sem er algerlega botnfrosinn svo fólk gæti endurskipulagt stöðu sína.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að farið yrði í metnaðarfulla og djarfa endurskipulagningu á skuldum heimilanna með það í huga að lækka almennt höfuðstólinn. Það mundi örva þennan markað og efnahagslífið almennt og um þetta hefur verið rætt.

Nú langar mig að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra, ekki síst í ljósi þess að nú er verið að hækka álögur og skera niður og það vantar svör um hvernig á að örva markaðinn og efnahagslífið. Mig langar að spyrja hann um tvo afmarkaða þætti og hann má svo sem bæta við ef hann hefur fleiri hugmyndir. Kemur til greina að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs? Íbúðalánasjóður er núna nánast eini lánveitandinn á fasteignamarkaði og hámarkslán hans eru 20 millj. Þetta er náttúrlega fáránlega lágt í þessu árferði. Kemur ekki til greina að hækka þetta, t.d. upp í 30 millj. til að reyna að koma þessum markaði af stað?

Kosningaloforð Samfylkingarinnar í góðærinu var að afnema algerlega stimpilgjöld og hún var með ansi fínar auglýsingar um það. Núna kreppir að, markaðurinn er botnfrosinn. Kemur til greina að afnema stimpilgjöldin algerlega en ekki bara á íbúðakaupum þeirra sem kaupa íbúðir í fyrsta sinn? Mig langar að spyrja að þessu tvennu og vil gjarnan heyra fleiri hugmyndir ef ráðherrann hefur þær.