138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

fasteignamarkaðurinn.

[10:51]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Á tímum efnahagslegrar óvissu heldur fólk að sér höndum á fasteignamarkaði. Það er bæði gömul saga og ný. Það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur öll að fasteignamarkaðurinn komist sem fyrst af stað. Við sjáum að vegna skorts á lánsfé sem hv. þingmaður gerði réttilega grein fyrir kemst fólk sem vill minnka við sig ekki úr stórum húsum. Við höfum horft á leiðir til að bregðast við þessu og erum að hefja samvinnu í samræmi við það umboð sem við fengum frá félags- og tryggingamálanefnd við samþykkt laganna í síðasta mánuði. Við erum að hefja samráð við bankana um samvinnu sem geti haft það að markmiði að auðvelda þeim að bjóða lán, greiða úr skorti þeirra á lánsfjármögnun á útistandandi íbúðalánum þeirra og gera þá öllum aðilum á markaði, Íbúðalánasjóði líka, kleift að auka sveigjanleika í framboði á íbúðalánum.

Ég hef verulegar efasemdir um að það sé rétt við þessar erfiðu aðstæður að breyta í grundvallaratriðum eðli Íbúðalánasjóðs úr öryggissjóði fyrir húsnæðisöryggi alls þorra almennings yfir í lánastofnun sem láni til mjög dýrs húsnæðis. Ég held líka þar af leiðandi að það sé vafasamt að hækka hámarkslánin á þessum tímapunkti upp yfir þær hæðir sem þau eru í núna. Ég tel mjög mikilvægt samt sem áður að búa til annan farveg til að hægt sé að veita lán fyrir dýrara húsnæði og þá með markaðsfjármögnun en ekki þannig að við aukum á skuldbindingar Íbúðalánasjóðs (Forseti hringir.) sem er með ríkisábyrgð.