138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

fasteignamarkaðurinn.

[10:54]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er verið að fara í aðgerðir til að bregðast við þessum vanda en jafnframt er verið að reyna að lágmarka áhættu almennings og ríkisins af auknu framboði til íbúðalána. Hækkun hámarkslána upp í 30 millj. er ef ég man rétt nokkurn veginn 350% hækkun hámarkslánsins frá árinu 2004. Auðvitað felst í því grundvallarbreyting á eðli sjóðsins og ég tel varhugavert að við setjum Íbúðalánasjóð, sem er með ríkisábyrgð, í þá stöðu að bera mestu áhættuna aftast í veðröðinni á tímum fallandi húsnæðisverðs. Við verðum að umgangast Íbúðalánasjóð af þeirri ábyrgð sem hann á skilið sem grundvallarstoð fyrir búsetuöryggi allra landsmanna. Ég held þess vegna að það sé mikilvægt að finna aðra farvegi. Við erum að vinna að því. Vonandi koma tillögur þar um mjög fljótlega og það er ekki verið að drolla við það. Þvert á móti er unnið að því af fullum krafti.