138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

framtíðaruppbygging á Vestfjarðavegi í kjölfar dóms Hæstaréttar.

[11:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp og umræðu sem hér mun verða um þetta. Ég bíð líka spenntur eftir að heyra hvað þingmenn munu segja um þá stöðu sem þarna er komin upp.

Hv. þingmaður nefndi að þetta væri hörmuleg staða og ég get alveg tekið undir það, virðulegi forseti, hún er það. Ef ég fer yfir tímaplanið og byrja bara á hönnun mögulegra kosta sem hófst í maí 2001 — eða ég sleppi því og fer í kosti sem kynntir voru á fundi í Bjarkalundi og á Patreksfirði 2. og 3. september 2003 og fer yfir þá tímalínu sem þarna hefur verið, tillögu að matsáætlun, matsáætlun, skýrsluna, úrskurð skipulagsstjóra, úrskurð umhverfisráðherra, málskot til héraðsdóms, dóm héraðsdóms, málskot til Hæstaréttar, dóm Hæstaréttar 22. október sl. þar sem Vegagerðinni var óheimilt að leggja þann veg eftir svokallaðri leið B sem talað hefur verið um. Þá leið vildu allir fara vegna þess að hún er mest á láglendi og er auðvitað langbesta leiðin hvað það varðar í staðinn fyrir að fara yfir hálsana Hjallaháls og Ódrjúgsháls, upp í 340 metra hæð á Hjallahálsi eða 160 metra hæð yfir Ódrjúgsháls. Þegar önnur leið er fær, eins og hv. þingmaður talaði um, á láglendi er auðvitað æskilegast að menn komist þá leið og þar varða umferðaröryggisatriði miklu.

Við þekkjum það sem þurfum að ferðast um svæði á landsbyggðinni og fara yfir hjalla, hálsa og fjöll hvað það er stundum erfitt. Ég hef verið á þessari leið, á leið á fund á Patreksfirði um þessi mál þar sem maður sá naumast fram á húddið á bílnum og krossaði fingur um að enginn kæmi á eftir manni eða á móti manni, þegar menn biðu af sér mestu byljina og sáu ekki neitt. Þetta er hlutur, virðulegi forseti, sem vert er að hafa í huga og kemur upp á móti því sem andstæðingar þessarar vegarlagningar á þessu svæði hafa hvað mest haldið fram, þ.e. náttúruverndinni og því að fara í gegnum Teigsskóg.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr: Hvernig verður unnið áfram að uppbyggingu vegar frá Þorskafirði og fyrir Skálanes í kjölfar dóms Hæstaréttar? Ég vil aðeins segja það að 3. nóvember sl. boðaði ég til mín fulltrúa sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum, fulltrúa þeirra úr samgöngunefnd Fjórðungssambandsins, og fulltrúa Vegagerðarinnar. Þar var farið yfir stöðu mála í kjölfar dóms Hæstaréttar. Á þeim fundi var óskað eftir því að Vegagerðinni yrði falið að taka saman greinargerð um þær veglínur og valkosti sem hefðu verið til skoðunar gegnum árin varðandi nýjan Vestfjarðaveg um Gufudalssveit. Þar kæmi m.a. fram áætlaður kostnaður á núverandi verðlagi, hvenær unnt væri að hefja framkvæmdir við einn og einn kost, hversu lengi framkvæmdir mundu standa yfir o.s.frv. Það er reiknað með að þessi greinargerð liggi fyrir í fyrri hluta desembermánaðar og ég tel mjög mikilvægt að við fáum það öll, Vestfirðingar, þingmenn kjördæmisins og aðrir, til að vega og meta. Einnig er í gangi á vegum ráðuneytisins og Vegagerðarinnar vinna um það að skoða til hlítar ýmis lögfræðileg álitaefni sem eru í tengslum við þennan dóm sem fallinn er.

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt að þetta er það svæði sem er sennilega hvað verst í vegtæknilegu og vegalegu sambandi. Þess vegna var eitt fyrsta útboðið strax eftir hrun, ef ekki það fyrsta þegar við fengum aftur að bjóða út vegaframkvæmdir, fyrsti kaflinn sem þarna var hægt að taka, þ.e. Þverá í Kjálkafirði að Þingmannaá í Vatnsfirði. Það voru 16 kílómetrar, tilboðin voru opnuð 24. febrúar, við fengum 19 tilboð, vinna er þar í gangi og áætlað er að ljúka að fullu 1. september 2010 með báðum lögum klæðningar. Áætlaður heildarkostnaður var 730 milljónir.

Hv. þingmaður spyr líka um kafla sem er frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, þar bíðum við eftir úrskurði umhverfisráðherra. Við gætum stytt þá leið um 9 km með þeim þverunum sem þar eru lagðar fram. Hann spyr hvað sé gert í framhaldi af því. Ef við þurfum að fara þessa leið getur sú málsmeðferð tekið allt að 10 mánuði. Þá stendur eftir kaflinn sem deilt hefur verið hvað mest um og umræddur hæstaréttardómur fjallaði um en til upplýsinga eru þetta í kringum 56 km núna ef mér reiknast rétt til (Forseti hringir.) sem er malarslitlag og mjög lélegur vegur á leiðinni Reykjavík/Patreksfjörður. Það er auðvitað óásættanlegt árið 2009. (Forseti hringir.) Þess vegna er ég sammála þingmönnum Norðvesturkjördæmis sem segja: Þetta er aðalatriðið í þessu kjördæmi í vegamálum.