138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

framtíðaruppbygging á Vestfjarðavegi í kjölfar dóms Hæstaréttar.

[11:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ákvörðun Hæstaréttar um að fella úr gildi úrskurð þáverandi umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, Jónínu Bjartmarz, í því máli sem hér er talað um kemur í sjálfu sér ekkert mjög á óvart. Reyndar held ég að á öllum stigum þessa máls hafi allar umhverfisstofnanir lagst gegn þessum fyrirætlunum á sínum tíma. Umhverfisstofnun lagðist gegn því, Náttúrufræðistofnun Íslands líka og sömuleiðis Skipulagsstofnun, en umhverfisráðherra kaus að líta fram hjá þeim álitum á þeim tíma og leita ekki heldur annarra leiða til lausnar á málinu. Úrskurður Hæstaréttar kemur því í sjálfu sér ekki á óvart ofan í úrskurð héraðsdóms rétt eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson ræddi áðan. Það má segja að ferlið allt í þessu máli, af hálfu umhverfisráðherra fyrst og fremst, hafi verið afar klaufalegt og illa að því staðið sem leiðir til þess að við lendum svo aftur núna í nánast sömu sporum og við vorum fyrir þeim árum þegar þetta var gert.

Það er alveg ljóst að mínu viti að leita þarf allra leiða til að koma þarna á öruggum, tryggum og betri vegasamgöngum eins og hefur alla tíð verið ætlunin að gera. Við verðum að snúa okkur að því. Það er sömuleiðis ljóst að mínu viti að í það minnsta hefur ekkert breyst, að ég tel, sem bendir til þess að Umhverfisstofnun hafi breytt áliti sínu á þessu vegstæði frá því sem var þannig að mér þykir ljóst að annaðhvort þurfi að fara í það mál frá grunni eða leita nýrra leiða til lausnar á þeim vanda sem þarna er.

Auðvitað þarf að vinna hratt og vel að þessu máli en í sátt við alla aðila og jafnhliða því ber að leita lausna á því vegstæði sem þarna er fyrir ef þær lausnir eru fyrir hendi en leita annarra leiða ef þær eru færar. Það er ekki hægt að bjóða öllu lengur upp á þær samgöngur sem þarna eru og hafa verið allt of lengi í algjörum lamasessi.