138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

framtíðaruppbygging á Vestfjarðavegi í kjölfar dóms Hæstaréttar.

[11:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Sorgarsöguna um veginn um og yfir Þorskafjörð og þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar þarf ekki að rekja í löngu máli. Þar gengur allt á afturfótunum. Að loknum vönduðum og fínum úrskurði þáverandi umhverfisráðherra, Jónínu Bjartmarz, töldu flestir að málið væri komið á beina braut en því var aldeilis ekki að heilsa. Þá tóku við kærur sem aldrei fyrr.

Í sumar féll dæmalaus dómur héraðsdóms og var málinu þá vísað til Hæstaréttar sem dæmdi í málinu í haust. Í dómi Hæstaréttar var dæmt á allt öðrum forsendum en í dómi héraðsdóms. Niðurstaðan er þessi, virðulegi forseti: Áframhaldandi óvissa sem ekki sér fyrir endann á.

Næst var ætlunin að taka kaflann frá Eiði í Vattarfirði að Þverá. Skipulagsstofnun ákvað að verkið væri háð umhverfismati. Ég beitti mér fyrir því ásamt hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni að þess yrði freistað að taka þá tilteknu kafla á þessari leið sem hafnir væru yfir allan vafa um að hefðu áhrif á umhverfið til að eitthvað yrði þá gert. Þetta eru vegarkaflar sem fylgja að öllu leyti eða því sem næst veglínunni sem nú er til staðar. Enn eitt flækjustigið kom þá í ljós. Búið er að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar til hæstv. umhverfisráðherra og meðan sá úrskurður liggur ekki fyrir má ekki taka út einstaka kafla. Kærufrestur til hæstv. umhverfisráðherra var til 28. apríl en þá hefur hæstv. umhverfisráðherra tvo mánuði til að úrskurða í málinu. Í dag, 19. nóvember, er enn ekki kominn úrskurður hæstv. umhverfisráðherra sem er algjörlega óásættanlegt og óskiljanlegt. Eftir sitja íbúarnir á sunnanverðum Vestfjörðum í algjörri óvissu.

Virðulegi forseti. Til að tryggja þann sjálfsagða rétt (Forseti hringir.) fólks á þessu svæði að búa við sambærilegt vegakerfi og annars staðar á landinu er nauðsynlegt að breyta lögum þannig að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum standi jafnfætis birkihríslum og vaðfuglum.