138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

framtíðaruppbygging á Vestfjarðavegi í kjölfar dóms Hæstaréttar.

[11:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni, fyrir að taka þetta mál upp. Ég held að þegar hafi komið fram í umræðunni að öllum beri saman um að þessi vegkafli, þ.e. Vestfjarðavegur 60, sé einn af þeim vegköflum sem hvað brýnast er að laga. Það er eiginlega fyrir löngu orðið til skammar að við skulum ekki hafa komið á almennilegum vegasamgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum með sambærilegum hætti og í öðrum byggðum í landinu.

Þegar ríkisstjórnin var skipuð árið 2007 og við lentum í þorskniðurskurði frá hv. málshefjanda, þ.e. sú ákvörðun var tekin á þeim tíma, var einmitt farið í flýtiframkvæmdir á þessum vegkafla. Menn ætluðu sér að drífa Vestfjarðaveginn áfram. Síðan má taka undir það sem hér hefur komið fram að allt frá þeim tíma hefur þetta mál lent í ótrúlegum ógöngum í dómskerfinu og í umhverfismatsumræðu.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að það skipti miklu máli að vel sé farið með í sambandi við umhverfismat á vegum jafnt sem öðrum framkvæmdum. Ég hef þó oft spurt mig hvort sú lagasetning sem sett var á þeim tíma af þáverandi samgönguráðherra eða í samráði við hann, þegar menn ákváðu með hvaða hætti ætti að ákveða vegstæði og annað — hvort þetta ferli sé orðið allt of flókið. Það er auðvitað mikið umhugsunarefni þegar einn og tveir einstakir aðilar geta stöðvað vegasamgöngur og bætta vegalagningu fyrir heilu byggðarlögin árum saman.

Ég vona að það ferli sem hér er reynt að ákveða sem lausn út úr þessum vanda, þar sem kallaðir hafa verið til allir aðilar sem eiga hagsmuna að gæta á þessu svæði og Vegagerðin hefur áætlað að koma með tillögur um hvað eigi að gera í stöðunni, að við þingmenn kjördæmisins og aðrir þingmenn á Alþingi Íslendinga fáum tækifæri til að ræða málin og reyna (Forseti hringir.) að finna hraðvirkustu og bestu leiðina út úr þessum ógöngum. (Forseti hringir.) Við getum ekki búið við þessar vegasamgöngur á Vestfjörðum mikið lengur.