138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

2. umræða um Icesave og kvöldfundur.

[11:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir áhyggjur hv. þm. Birgis Ármannssonar af því hvort það frumvarp sem við eigum að fara að ræða á eftir standist einfaldlega stjórnarskrá. Það er mikið áhyggjuefni ef það verður niðurstaðan að þingið samþykki frumvarp og geri að lögum sem síðan stangast á við stjórnarskrá.

Hitt vildi ég segja hvað varðar framhald þingfundar að ég tel að það yrði til heilla ef forseti hefði frumkvæði að því að kalla saman fund þingflokksformanna núna á eftir og við gengjum frá því hversu lengi í kvöld við ætluðum að halda hér fund. Úr því að niðurstaða þingheims varð að hafa kvöldfund tel ég þar af leiðandi eðlilegt að við tökum einhverja ákvörðun um það hversu lengi sá fundur eigi að standa. Það er ekki hægt að bjóða Alþingi upp á að hér sé farið inn í alla nóttina til að ræða jafnmikilvægt mál, bæði málsins vegna og hins að við höfum líka skyldur við (Forseti hringir.) kjósendur okkar úti í kjördæmunum sem við eigum mörg hver fundi boðaða við snemma í fyrramálið.