138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

2. umræða um Icesave og kvöldfundur.

[11:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að forseti ætlar að funda einhvern tímann í dag með formönnum allra þingflokka. Ég hefði talið langeðlilegast að menn hefðu sest niður og rætt saman áður en þessi þingfundur var settur.

Þann tíma sem ég er búin að sitja á þingi hefur það yfirleitt verið þannig að allir þingmenn í salnum hafa samþykkt þegar lagt er til að hafa kvöldfundi og ekki hefur farið fram atkvæðagreiðsla. Nú fór hins vegar fram atkvæðagreiðsla og það var alveg greinilegt að stór hluti þingmanna er ekki sáttur við að haldinn sé kvöldfundur og ég tel það alls ekki í anda þess samráðs og samvinnu sem þessi ríkisstjórn boðaði þegar hún settist að völdum. Ég tel líka að þessi mikla tíðni kvöldfunda undanfarið, oft hefur maður upplifað að það sé nánast vegna skipulagsleysis hjá þinginu, sé alls ekki í anda ræðu forseta þegar hún tók við (Forseti hringir.) sínum stóli. Hún talaði ansi mikið um að það yrði að móta fjölskylduvænna Alþingi.