138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

2. umræða um Icesave og kvöldfundur.

[11:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað. Það er mjög mikilvægt að fá að vita hversu lengi forseti ætlar að hafa fund í dag. Ég hygg að þingflokksformenn séu reiðubúnir að funda með forseta nú þegar eða a.m.k. mjög fljótlega til að klára það mál.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi, það er mjög mikilvægt og ég raunar krefst þess að forsætis- og fjármálaráðherrar verði við þá umræðu sem hér fer fram í dag og í kvöld, ekki síst vegna þess að forsætisráðherra gerir þá kröfu á þingmenn að þeir séu staddir hér þegar hún talar við þá.

Einnig bendi ég á að ef eingöngu þingmenn stjórnarandstöðu eða þeir þingmenn sem greiddu atkvæði gegn því að hafa kvöldfund verða í salnum í kvöld er vert að endurskoða þingsköpin ef meiri hlutinn á Alþingi getur ákveðið að hafa kvöldfundi, láta stjórnarandstöðuna vinna í þingsal en hverfa svo á braut sjálfur.