138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar, sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur hér gert grein fyrir, er fremur efnisrýrt og ekki bætti ræða hans miklu við. Það er skautað mjög létt yfir helstu ágreiningsefnin í málinu og ekki fjallað um atriði sem skipta verulegu máli. Kjarni málsins er sá að þeir fyrirvarar sem Alþingi setti í sumar hafa verið teknir úr sambandi þar sem þeir skiptu mestu máli. Mikilvægustu fyrirvararnir, lagalegir og efnahagslegir, hafa verið gerðir óvirkir eða veiktir með svo veigamiklum hætti að lítið hald verður í þeim, eða ekkert, ef staða efnahagslífsins verður hér slæm. En þessi fyrirvarar voru auðvitað hugsaðir sem öryggisventlar.

Ég spyr því hv. þm. Guðbjart Hannesson um stjórnarskrárvafann sem reifaður var hér áðan og m.a. reifaður í (Forseti hringir.) grein Sigurðar Líndals í morgun. (Forseti hringir.) Ekkert er um þetta í nefndarálitinu eða ræðu hans. (Forseti hringir.) Hver er afstaða hans eða meiri hluta fjárlaganefndar til þessa álitaefnis?

(Forseti (ÞBack): Nú verður forseti að áminna þingmenn um að halda sig við ræðutíma. Ein mínúta er fljót að líða.)