138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt frá því að þetta mál kom fyrst til umræðu í fjárlaganefnd hafa menn leitast við að tala íslenska ríkið, skuldsetningu og allt annað niður, reynt að kalla eftir neikvæðu áliti og reynt að fá neikvæðar niðurstöður. Við kölluðum eftir ólíkum niðurstöðum og aðferðum og komumst að þeirri niðurstöðu að við ráðum ágætlega við þetta verkefni, en í sjálfu sér verður það ekki átakalaust.

Það hefur líka komið fram í allri þessari umræðu að það er ágreiningur um það með hvaða hætti menn telja fram skuldir þjóðarbús, hvort maður tekur brúttó- eða nettóskuldir, hvort maður tekur bara skuldirnar sem við leggjum inn á reikninga eins og hjá bandaríska seðlabankanum. Eru þær þá reiknaðar sem skuld, jafnvel þótt innstæðan standi þar eftir sem áður? Við ræddum um að skuldastaða þjóðarbúsins væri ein tala, hvað með erlendu fyrirtækin? Allt þetta kemur fram í álitum frá efnahags- og skattanefnd, ítarleg umfjöllun fram og til baka um málið. Þar er meginniðurstaðan, a.m.k. frá 1. minni hluta og 2. minni hluta og efnahags- og skattanefnd, að ekki sé ástæða til að vefengja skuldaþolið þó að vissulega séu blikur á lofti ef mikið fer úrskeiðis. En þá erum við áfram með þá tryggingu að árið 2015 koma allir þeir sem eru aðilar að þessum samningum að borðinu til að skoða stöðuna að nýju og þeir hafa skuldbundið sig til að taka þá á málum með okkur. Það er gengið þannig frá þessu í þessu nýja frumvarpi.

Varðandi þessi sérstöku þök í 240% og annað sem var nefnt í fyrri lotunni (Forseti hringir.) í almennri ályktun er rétt að það hefur fallið út en það er (Forseti hringir.) tekið á því með öðrum hætti.