138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að skipta máli í þessari umræðu að við erum að taka ákvörðun um að færa skuldbindingar nútímans yfir á komandi kynslóðir, börnin okkar og barnabörn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði að ef greiðsluhlutfallið færi yfir 240% af heildarskuldunum væri það sama sem gjaldþrot hvaða þjóðar sem væri. Við höfum barist fyrir því í minni hlutanum að fá að vita hverjar heildarskuldirnar væru. Nú liggur það loksins fyrir bæði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabankanum að þær eru yfir 300%. Hv. formaður fjárlaganefndar fullyrti að það væri nægilegt þegar lög nr. 96/2009 voru samþykkt í lok ágústmánaðar að þetta varðandi skuldaþolið stæði einfaldlega í nefndarálitinu.

Nú kalla ég eftir svari: Stenst það sem formaðurinn sagði (Forseti hringir.) á þeim tíma? Ef ákvæðið væri virt eins og hann sagði (Forseti hringir.) væri ríkisábyrgðin nú þegar fallin niður áður en við samþykkjum hana á Alþingi.