138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er búin að fara í gegnum nefndarálitið hjá meiri hluta fjárlaganefndar og þar sem ekki virtist hafa verið tími til að ræða minnihlutaálitin frá efnahags- og skattanefnd langar mig til að benda á að það er talað um að bara eitt þróað hagkerfi sé með hærra skuldahlutfall hins opinbera en Ísland. Það er Japan. Nú veit ég að stjórnarliðar hafa sagst ósammála ýmsu sem stjórnarandstaðan hefur bent á en mig langar til að spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson hvort hann sé líka ósammála Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fjallaði sérstaklega í skýrslum sínum um ýmsa áhættuþætti í íslensku efnahagslífi og þar talaði hann um að það væri hætta á 620 milljarða kr. aukareikningi á íslenska ríkið ef neyðarlögunum yrði hnekkt fyrir dómi. Ég sakna þess virkilega að hvergi sé talað um þessa áhættu í meirihlutaálitinu þó að hins vegar sé aðeins imprað á þessu í einu af minnihlutaálitunum (Forseti hringir.) frá efnahags- og skattanefnd þannig að ég mundi gjarnan vilja heyra frá hv. þingmanni hver skoðun hans er varðandi áhættuna af þessu.