138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga er stórt og viðamikið verkefni sem vanda þarf vel til. Fyrir liggur viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga frá því í mars á þessu ári um flutning málaflokksins til sveitarfélaga 2011. Helstu markmiðin með þessum tilflutningi eru m.a. að bæta þjónustu við fatlaða og að hún sé sniðin að mismunandi þörfum og ólíkum aðstæðum notenda þjónustunnar hverju sinni. Einnig er lagt upp með að samþætta alla nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga og koma í veg fyrir að fatlaðir lendi á milli kerfa og fái ekki þá þjónustu sem þeim ber með því að eitt stjórnsýslustig, þ.e. sveitarfélög, ber að stærstum hluta ábyrgð á almennri félagsþjónustu og samþættingu hennar í sveitarfélaginu.

Allmörg sveitarfélög sinna nú þegar þessari umfangsmiklu þjónustu við fatlaða með samningum við ríkið með ágætum árangri og má þar t.d. nefna Akureyri. Ég tel að málefni fatlaðra sé nærþjónusta sem vel eigi heima á forræði sveitarfélaga en útgangspunkturinn hlýtur að vera sá að nægt fjármagn fylgi verkefninu og að þjónustan skerðist ekki, heldur haldi áfram að þróast og eflast miðað við þarfir hvers og eins einstaklings. Þess vegna er mikilvægt að öllum sveitarfélögum sé gert kleift að sinna þessari þjónustu með sambærilegum hætti og þá vakna vissulega spurningar um getu fámennari sveitarfélaga til að sinna vel þessu verkefni og mismunandi fjárhagsstöðu þeirra. Því verður ríkið að tryggja með lögum að öllum fötluðum sé tryggð sambærileg grunnþjónusta ef málaflokkurinn færist yfir á forræði sveitarfélaga.

Ég tel því rétt að nú verði farið vandlega yfir það hvort tímabært sé að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaga við þær erfiðu aðstæður og ótryggu fjárhagsaðstæður sem blasa við ríki og sveitarfélögum (Forseti hringir.) næstu 2–3 árin. Ég tel mjög mikilvægt að fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir hendi þegar (Forseti hringir.) svo viðkvæmur málaflokkur er fluttur frá ríki til sveitarfélaga.