138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að vekja máls á þessu. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns að þetta mál hefur verið rætt í áratugi. Ég held að það sé búið að ræða þetta mál frá því að ég fór að skipta mér af stjórnmálum og það er ansi langt síðan. Allir eru sammála um að það væri æskilegt að gera þetta, rökin eru að nærþjónustan eigi frekar við hjá sveitarfélögunum.

Hví skyldi þetta þá taka þennan tíma? Ég held að stærsta einstaka ástæðan fyrir því sé að við skilgreinum sveitarfélög allt frá 50 manna samfélögum á borð við Árneshrepp og Skorradalshrepp til Reykjavíkur sem hefur 116.000 íbúa. Ég held að ef við viljum þetta þýði ekki fyrir okkur, virðulegi forseti — ef við meinum að við viljum færa verkefnin nær fólkinu þá eigum við líka að vera óhrædd við að beita öðrum leiðum.

Ég beitti mér fyrir því sem heilbrigðisráðherra að færa heimahjúkrun yfir til Reykjavíkur. Nú er búið að sameina heimahjúkrun og heimaþjónustu í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu sem talað hafði verið um í mjög langan tíma. Ég taldi ekki ástæðu til þess að bíða eftir því að málaflokkurinn yrði færður yfir. Þetta hefur gefist afskaplega vel og ég held að við eigum að skoða þetta á fleiri sviðum. Þegar ég fór um landið og hitti t.d. forsvarsmenn á Húsavík höfðu þeir hugmyndir um að sameina ýmislegt þvert á ríki og sveitarfélög, þjónustu og nærþjónustu á því svæði. Þetta eigum við að skoða því að það er engin ástæða til að bíða.

Síðan tek ég undir það og var ánægður að heyra hv. þingmenn tala um notendastýrða þjónustu vegna þess að það er ekki bara það sem koma skal heldur í rauninni það sem ætti að koma núna. Það kallar hins vegar á að við hugsum öðruvísi. Við höfum lagt allt of mikla áherslu á að veita fyrst og fremst stofnanaþjónustu en við þurfum að færa þetta yfir í notendastýrða þjónustu. Það er spennandi verkefni og ég vona að við getum náð góðri pólitískri sátt um það.