138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari umræðu. Hér er um grundvallarmál að ræða og umræðan á ekki að snúast um hvort við höfum efni á að þjónusta fatlaða.

Landssamtökin Þroskahjálp samþykktu á fundi sínum árið 1992 að málefni fatlaðra ættu að vera hjá sveitarfélögum og er nú alllangt um liðið. Málefni fatlaðra eru dæmigerð nærþjónusta sem á heima í sveitarfélögunum en vel að merkja, þau þurfa þá í minnstu tilvikunum að sameinast um þjónustuna. Við getum varla talað um minni svæði en svo sem 7.000 manna sem þurfa í mörgum tilvikum að sameinast um þetta verkefni.

Glæsilegur vitnisburður um þennan flutning málefnaflokksins er einmitt á Akureyri þar sem bæjarfélagið tók við þessu verkefni fyrir tólf árum, árið 1997. Það er glæsilegur vitnisburður um hvernig til hefur tekist í þessum málum og menn ættu að horfa til Akureyrar hvað þetta varðar.

Ég tel að það ætti að fara hina svokölluðu sænsku leið, þ.e. að sérlög um málefni fatlaðra verði látin gilda í þessum málalið. Þetta fari ekki undir félagsþjónustulög, sem eru heimildalög en hin lögin eru réttindalög. Ég held að við ættum að fara eftir þeim lögum sem betur henta og varðveita öryggi fatlaðra fremur en sveitarfélaganna og hins opinbera.

Ég vil síðan geta eins sem er mjög mikilvægt í þessum málefnaflokki og er grundvallaratriði. Við núverandi kerfi blasir við að framkvæmdaraðilinn og eftirlitsaðilinn eru með sama hausinn. Þessu, þó ekki sé nema þessu, verður að breyta og þess vegna er þessum málaflokki mjög vel borgið í höndum sveitarfélaga sem geta þá orðið framkvæmdaraðilinn en ríkið verður áfram eftirlitsaðilinn. Þetta er eitt stærstu atriðanna sem ber að hafa í huga í þessari umræðu. (Forseti hringir.)

Að lokum er þess að geta að við höfum (Forseti hringir.) tækifæri til þess að skipta um kerfi við þetta og gera kerfið notendavænna fyrir vikið.