138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðuna. Ég hefði mikinn áhuga á að heyra skoðun hans á orðum sem koma fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um áhættumat varðandi íslenskt efnahagslíf. Þar er talað um hættu á 620 milljarða kr. aukareikningi á íslenska ríkið ef neyðarlögunum verður hnekkt fyrir dómi. Í fréttum um þessa umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er sagt að ef til þess kemur að dómstóll verði látinn skera úr um gildi neyðarlaganna og í ljós kemur að neyðarlögin standast ekki mun það þýða fimm milljarða dollara reikning fyrir ríkissjóð, jafnvirði um 620 milljarða kr. Það mundi auka skuldir ríkisins um 40% af landsframleiðslu og skapa erfiðleika fyrir Ísland að standa undir skuldum.

Hvaða afleiðingar heldur hv. þingmaður, á grunni þeirrar reynslu og þekkingar sem hann hefur aflað sér í vinnunni varðandi þetta Icesave-frumvarp nr. 1 og 2, að það hefði fyrir Ísland ef þetta mundi gerast? Ég hef heyrt af því að nú þegar hafi kröfuhafar höfðað mál fyrir íslenskum dómstólum til þess að láta reyna á neyðarlögin. Niðurstaða ætti að koma innan nokkurra vikna. Hvaða afleiðingar hefði það ef dómstólar gerðu athugasemd við neyðarlögin?