138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er með þessi skuldahlutföll Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það hefur sennilega breytt um vindátt. Eins og skýrt kom fram í sumar höfðu þeir miklar áhyggjur af 160% skuldahlutfalli og lýstu því þá yfir að ef frekar gengisfall yrði á krónunni og hlutfallið færi upp í 240% af landsframleiðslu, þá yrði það sem þeir kölluðu „clearly unsustainable“. Núna er að þeirra mati þetta hlutfall komið í 310% og enn þá er, ja ég segi ekki að það sé allt í himnalagi, en það er ekkert til að hafa áhyggjur af þannig séð. Það kom líka fram í tölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í skýrslu þeirra að næstu 5–10 árin er ástandið „unsustainable“, þ.e. það er meira útflæði en innflæði, við náum ekki að standa undir þessum skuldum. Aðspurður sagði fulltrúi sjóðsins á fundi efnahags- og skattanefndar að til lengri tíma litið væri þetta „sustainable“, en ekki næstu 5–10 árin. Seðlabankinn minnist ekki á þetta í minnisblaði sínu, ekki einu orði. Þarna er einfaldlega um að ræða misvísandi álit og ekki hefur fengist nákvæm niðurstaða úr því að öllu leyti hvers vegna þau eru mismunandi. Að vísu er einn mismunurinn háður stóru íslensku fyrirtæki sem mátti ekki nefna á nafn, en skuldir þess voru eitthvað í kringum þúsund milljarðar. Þær eru teknar með í áliti gjaldeyrissjóðsins en það er samt ekki nægilegt til að útskýra allan þennan mun og allar þær misvísandi tölur sem er að finna í skýrslum þessara stofnana.