138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er einfalt: Nei, við fengum ekki aðrar fundargerðir en lagðar hafa verið fram sem fylgiskjöl með áliti meiri hlutans. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það sem kemur fram í fundargerðunum er afar rýrt, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem fór hér fram í allt sumar um að þingmenn og sérstaklega þeir sem sátu í fjárlaganefnd hefðu þurft að fá greinarbetri mynd af því hvernig viðræðurnar fóru allar fram.

Af því að þingmaðurinn minntist líka á að það hefði verið undarlegt þegar menn áttuðu sig á því að til stóð að breyta þessum fyrirvörum, er ég þeirrar skoðunar að samkvæmt lögum 96/2009, sem ákveðin voru hér í sölum Alþingis 28. ágúst, hafi ekki falist umboð til þess að semja upp á nýtt. Það stóð einfaldlega að Hollendingar og Bretar þyrftu að samþykkja fyrirvarana, að öðrum kosti félli ábyrgðin niður.