138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni, ég deili nefnilega þeirri skoðun með honum. Í þessu hefur í raun falist hreint og klárt lögbrot, það stóð aldrei að það mætti fara og semja um þetta. Það stóð að fyrirvararnir yrðu kynntir og ríkisábyrgðin tæki ekki gildi fyrr en þeir hefðu verið samþykktir.

Þá vil ég líka spyrja þingmanninn hvað honum finnst um að upplýst hefur verið í þessum ræðustól af hæstv. fjármálaráðherra og af hæstv. utanríkisráðherra að fjöldinn allur af fundum hafi átt sér stað í New York, Istanbúl, Haag, London og Reykjavík, og óformleg samtöl og símtöl. Deilir þingmaðurinn þeirri skoðun minni að það sé í hæsta máta óeðlilegt að svona fundir, hvort sem þeir eru óformlegir eða ekki, um svo mikilvægt mál séu haldnir og ekki teknar af þeim fundargerðir? Hvað vill þingmaðurinn segja um það?