138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir vandaða og málefnalega ræðu þar sem hann fór vandlega yfir það og greindi vel frá því hvernig fyrirvararnir sem samþykktir voru á Alþingi í lok sumars eru að engu orðnir eftir síðustu vendingar í málinu.

Þar sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson á sæti í fjárlaganefnd en ekki ég eru tvö atriði sem ég vildi spyrja hann nánar út í og vildi gjarnan að hann greindi frá svo það mætti verða til þess að leiða upplýsingar frekar fram hér í umræðunni. Annars vegar velti ég því fyrir mér — hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni þá breytingu sem snýr að því að nú eru þau atriði eða það sem eftir stendur af fyrirvörunum komið inn í viðaukasamninga en eru ekki lengur í íslenskum lögum og viðaukasamningarnir lúta lögsögu enskra dómstóla og um túlkun þeirra fer að enskum lögum — ég er að velta fyrir mér hvort fjárlaganefnd hafi farið yfir þetta mál í starfi sínu, hvort það hafi verið rætt innan fjárlaganefndar og hvort hún hafi metið hvaða áhrif þetta kynni að hafa. Ég kann ekki svar við þeirri spurningu en ég hygg hins vegar að þetta geti skipt töluverðu máli þegar til kastanna kemur.

Hitt atriðið varðar upplýsingar um eignasafn Landsbankans og ég velti fyrir mér að hvaða leyti fjárlaganefnd fékk upplýsingar frá skilanefnd Landsbankans um eignasafnið m.a. með tilliti til þess hvernig vænta mætti að eignir skiluðu sér til greiðslu (Forseti hringir.) til forgangskröfuhafa.