138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni fyrir afar góða og yfirgripsmikla ræðu og ég get tekið undir flest sem kom fram í máli hans.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á svokallaða Ragnars H. Halls-fyrirvara sem er núna verið að snúa á haus og af því að hann er löglærður maður en ekki ég langar mig að spyrja hann og velta því upp við hann og það er sú tenging sem er nú komin við það að íslenskir dómstólar þurfa að fá álit frá EFTA-dómstólnum til að þetta taki gildi. Það kom fram í máli Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors á fundi fjárlaganefndar að það gætu hugsanlega komið upp deilur um álit EFTA-dómstólsins ef það kæmi á annað borð, milli Breta og Hollendinga og Íslendinga annars vegar. Hver er skoðun hv. þingmanns á þessu, þ.e. hvaða áhrif mun þessi tenging hafa á afgreiðslu málsins gagnvart þessu? Eins og við vitum, virðulegi forseti, fjallar Ragnars H. Halls-ákvæðið ekki um annað en þá sanngirniskröfu að farið sé að íslenskum lögum við það að skipta upp íslenskum þrotabúum. Það er í raun og veru ekkert flóknara en það.

Síðan langar mig líka að spyrja hv. þingmann: Ef Alþingi kemur til með að samþykkja þetta frumvarp — vegna þess að með þessari tengingu við EFTA-dómstólinn og það kom klárlega fram á fundi fjárlaganefndar, eru Bretar og Hollendingar í raun og veru að gefa út þá yfirlýsingu að þeir treysti ekki íslenskum dómstólum — ef Alþingi Íslendinga samþykkir þessa breytingu á fyrirvörunum og það frumvarp sem nú liggur fyrir, er Alþingi þá í raun og veru að taka undir með Hollendingum og Bretum um að það vantreysti íslenskum dómstólum?