138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessum spurningum hv. þingmanns er vandsvarað. Sú ákvörðun var tekin 5. desember 2008 að fara með þetta mál í þennan farveg sem markaður var pólitískt á grunni svokallaðra Brussel-viðmiða og þar var mörkuð sú stefna að leita pólitískrar niðurstöðu, þ.e. að semja sig að lausn. Þá lögðum við lagalegan ágreining til hliðar og hinar þjóðirnar viðurkenndu að taka yrði tillit til fordæmalausra aðstæðna Íslands eftir að fjármálakerfi landsins hrundi.

Ég álít að sú pólitíska lending sem ákveðið var að fara hafi m.a. verið tekin vegna þess að við gerðum okkur grein fyrir því að við yrðum að semja um þær greiðslur, þær skuldbindingar sem hugsanlega kynnu að koma til. Meginatriðið er hins vegar það að samfélag hér austan við landið neitaði þjóðinni um réttláta úrlausn, eins og ég kom að í upphafi ræðu minnar, á þeirri grundvallarspurningu sem enn er ósvarað í málinu: Lítur þetta þannig við að íslenskum skattgreiðendum, íslenskri þjóð beri að gangast undir þessa skuldbindingu? Við höfum álitið að svo væri ekki og þar af leiðandi væru möguleikarnir gagnvart dómsmáli ágætir að mínu mati.

En af því að hv. þingmaður spurði um erlenda lögspekinga þá liggur ekkert formlegt álit fyrir. Við fengum á símafund í fjárlaganefnd Nigel nokkurn Ward, held ég að hann heiti, sérfræðing í Bretlandi. Það er eina erlenda röddin sem heyrst hefur í eyrum fjárlaganefndarmanna í þessu stóra og viðamikla máli.