138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir þessi orð hv. þingmanns varðandi þær hættur sem liggja í þessu fyrir íslenska þjóð gagnvart fólksfjölda og íbúaþróun. Ég deili áhyggjum hans í þeim efnum mjög varðandi það hvernig efnahag þjóðarinnar er háttað og áhrifum þess á fólksfjöldaþróun. Við sjáum það bara í okkar litla samfélagi ef við lítum til smárra byggða, eftir því sem staða þeirra er verri í efnahagslegu tilliti þeim mun veikari er sú byggð sem þar hefur þrifist hugsanlega um margar aldir.

Varðandi þá orðræðu sem lýtur að því að Íslendingar einangrist í samfélagi þjóðanna ef við undirgöngumst þetta ekki, þá hefur mér alltaf þótt hún mjög undarleg og sérstök og verið í mínum huga nokkurs konar mælskubragð til að fæla menn frá staðfestu sinni í andstöðu við þetta mál. Það þarf ekki annað en kíkja á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið til að finna þar afskaplega ljúfar setningar sem sannfæra alla um það að meðan sá samningur gildir ætti ekki að vera nein hætta í þessum efnum. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa eina örstutta setningu úr inngangi hans sem hljóðar þannig:

„... að Evrópskt efnahagssvæði muni stuðla að uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda; árétta að höfuðáhersla er lögð á náin samskipti Evrópubandalagsins, aðildarríkja þess og EFTA-ríkjanna, sem grundvallast á nálægð, sameiginlegu gildismati frá fornu fari og evrópskri samkennd.“

Undir þetta höfum við skrifað ásamt öðrum þjóðum og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að báðir stjórnarflokkarnir standi í þeirri trú að þetta ákvæði við vinaþjóðir okkar í austri muni halda.