138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir lesturinn á þessari klausu. Þetta er raunar einmitt í samræmi við þau svör sem ég fékk fyrir nokkrum dögum á fundi með Evrópuþingmönnum þar sem ég spurði þá út í þessar fullyrðingar, hvort vænta mætti viðbragða í líkingu við það sem stjórnarliðar hafa lýst ef Íslendingar stæðu áfram fastir á rétti sínum. Auðvitað yrði Evrópusambandið eða aðrir ekki í neinni aðstöðu til að beita okkur slíkum efnahagsþvingunum. En ég vil bara ítreka það, og þakka þingmanninum fyrir að taka undir með mér, að fólksflóttinn er alveg gífurlegt áhyggjuefni og hann minnkar ekki ef við gerum ráðstafanir sem halda gengi krónunnar veiku um áratugaskeið með þeim afleiðingum að fasteignaverð hrynur hér og það verður ómögulegt að mynda skattstofna til að standa undir öllum þeim gífurlegu sköttum sem ríkisstjórnin ætlar að leggja á.