138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um áður í fyrra andsvari mínu deili ég áhyggjum hv. þingmanns í þessum efnum. Ég tel hins vegar mjög brýnt í stöðunni eins og hún er í dag að við einsetjum okkur það öll, hvar svo sem við í flokki stöndum, að tala kjark í þjóðina. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum fullt af tækifærum, Íslendingar, til að vinna okkur út í gegnum þessar hremmingar ef við höldum rétt á málum, ég er ekki þeirrar skoðunar að hér sé allt á leiðinni til fjandans. Við eigum fulla möguleika til að breyta um kúrsa í ákveðnum málum, m.a. er þetta einn af þeim. Þess vegna trúi ég því og treysti, vegna þess að ég deili, eins og ég gat um áðan, áhyggjum mínum með hv. þingmanni um hvaða áhrif þetta kunni að hafa, með því að leggja inn með öðru trúi ég því og treysti að Alþingi Íslendinga hafi þá reisn og þá trú á getu og vilja þjóðarinnar til að vinna sig út í gegnum þetta að við fáum gerðar breytingar á því frumvarpi sem hér liggur fyrir til umræðu.