138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni svarið. Ég skil það með svipuðum hætti og ég skynja þá tilfinningu sem ég hef, að ekki sé líklegt að hægt sé að gera nægilega miklar breytingar á þessu sem liggur fyrir til að það verði nothæft með hag almennings á Íslandi í huga.

Þá langar mig að spyrja hann þeirrar spurningar hvort ekki sé æskilegast, sem ég tel, að það sé mjög nálægt því að vera meiri hluti fyrir því á þingi að þetta frumvarp eins og það liggur fyrir verði einfaldlega dregið til baka og að lög nr. 96/2009, þessi frá því í sumar, verði látin standa. Að öðrum kosti verðum við að sjálfsögðu, og þá væntanlega hv. þingmaður, að láta forseta Íslands vita að það hafi orðið algjör forsendubrestur á hans málum varðandi staðfestingu á því frumvarpi ef þetta frumvarp nær í gegn.