138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Á fundi forseta með þingflokksformönnum fyrr í dag var til umræðu sú ákvörðun hér í þinginu að vera með kvöldfund. Stjórnarandstaðan lagði áherslu á að það yrði hætt frekar snemma, ekki væri ástæða til að vera með kvöldfund, það ætti frekar að skapa fjárlaganefnd og öðrum tíma til að vinna að öðrum brýnum málum en þessu. Því var hafnað og mun fundur standa ekki lengur en til miðnættis.

Á mælendaskrá eru núna 15 stjórnarandstöðuþingmenn og þrír stjórnarliðar. Mig langar því að biðja hæstv. forseta að beita sér fyrir því að þeir sem greiddu atkvæði með því að hafa kvöldfund verði hér í kvöld, tali þá í þessu máli og sýni því og þinginu þann sóma vegna þess að þeir kusu að hafa þennan fund með þessum hætti.

Jafnframt óska ég eftir því að forseti beiti sér fyrir því að forsætisráðherra verði við þessa umræðu því að þó að mér þyki mjög vænt um að hæstv. fjármálaráðherra sé hérna er (Forseti hringir.) mjög nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra sé hér einnig. Bið ég forseta að sjá til þess.