138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Fyrr í dag gerði ég athugasemdir við fundarstjórn forseta og hef ekki enn fengið úr því leyst. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta nú er að það tengist athugasemdum hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar og Gunnars Braga Sveinssonar. Hæstv. forsætisráðherra neitaði að svara fyrirspurn fyrr í dag þar sem hún sá mig ekki í salnum. Eins og ég útskýrði á sínum tíma þurfti ég að bregða mér á bak við þetta þil til að komast inn í sæti mitt þarna hinum megin (Fjmrh.: Varstu lengi á leiðinni?) og það er svoleiðis með — hæstv. fjármálaráðherra, það var ljósmyndari í dyragættinni. Mér datt í hug — af því að ég sá þetta tímarit á horninu sem ég vona að sé í lagi að ég hafi fengið lánað, það er um ungbörn — að þegar eitthvað hverfur sjónum ungbarna telja þau að það sé ekki lengur til. Þetta virðist hafa hent hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag og er þess vegna mikið áhyggjuefni að forsætisráðherra skuli ekki vera hér í kvöld. Hann gerir þá væntanlega ráð fyrir því að þingið sé ekki til og því hvet ég hæstv. forseta (Forseti hringir.) til að boða hæstv. forsætisráðherra á fund okkar.