138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn á ný kemur í ljós að hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur ekki skilið sólarlagsákvæðið 2024. Það var mjög skýrt tekið fram í fyrirvörum Alþingis að greiðslum af Icesave-reikningunum lýkur árið 2024. Vilji Alþingi hins vegar gera eitthvað annað eftir þann tíma er því að sjálfsögðu í sjálfsvald sett að gera það.

Það er með ólíkindum að upplifa að hv. þingmanni er mikið létt að þessari óvissu sé eytt, að við þurfum að borga út í hið óendanlega. Að halda því fram að einhverjar deilur hafi verið um það á milli þingmanna þegar menn voru að afgreiða málið er alls ekki rétt. Einungis hv. þm. Björn Valur hafði þessar meiningar og hann er ekki enn farinn að skilja málið. Þetta veldur mér miklum áhyggjum, virðulegi forseti.

Mig langar samt í lokin að beina til hans einni spurningu: (Forseti hringir.) Finnst honum réttlætanlegt í samningunum að við greiðum vexti (Forseti hringir.) frá 1. janúar 2009 upp á 30–40 milljarða (Forseti hringir.) sem okkur ber ekki lagaleg skylda til að gera?