138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:05]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þetta er ekki þannig mál að maður hendi mönnum í land út af þessu, enda hef ég svo sem ekki stungið upp á að mönnum verði hent hér út hvað það varðar, rökræðan hefur staðið hér yfir í bráðum hálft ár eins og ég sagði áðan og það er búið að takast á um það af fullum krafti.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um það sem Nigel Ward sagði á símafundi í fjárlaganefnd, að það mætti jafnvel hugsa sér að í því fælist, eins og hann orðaði það, lítið traust á íslenskum dómstólum, það mætti alveg ímynda sér það, sagði hann, í þessum málum. Ég tek alls ekki undir það, ég treysti íslenskum dómstólum, ég var miklu frekar hugsi yfir því hvernig stendur á því að íslenskum dómstólum er vantreyst, ef það er staðreyndin? Hvers konar stöðu er Ísland komið í ef erlend ríki vantreysta íslenskum dómstólum rétt eins og öllu öðru hér á landi? Það er umhugsunarefni.