138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Icesave-samningarnir snúast ekki um átök á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Icesave-samningarnir eiga ekki að vera til umræðu í þinginu sem mál þar sem gert er upp á milli fyrrverandi ríkisstjórnar og núverandi ríkisstjórnar. Þetta mál á ekki að ræða á þeim forsendum að staðið hafi verið með röngum hætti að einkavæðingu bankanna árið 2003 og það hafi haft einhverjar tilteknar afleiðingar sem núverandi ríkisstjórn hafi tekið að sér að leysa. Þetta mál er sameiginlegt hagsmunamál allra flokka. Okkur ber skylda til að nálgast umræðuna á þeim forsendum. Hvað þetta snertir hefur ríkisstjórnin algerlega brugðist.

Hæstv. forsætisráðherra hljómar ekki eins og forsætisráðherra okkar Íslendinga þegar rætt er um þetta hér í þingsölum. Það sama gildir um hæstv. fjármálaráðherra, sem talar fyrst og fremst sem fjármálaráðherra vinstri grænna en ekki fjármálaráðherra allrar þjóðarinnar í þessu máli. Þetta mál er ekki átakamál á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þetta er milliríkjadeila á milli Íslands og Íslendinga og þeirra sem sækja kröfur á íslenska skattgreiðendur. Það er sorglegt hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málinu með þveröfugum hætti og gert þetta að pólitísku bitbeini í íslenskum stjórnmálum.

Sú niðurstaða sem við fjöllum hér um er auðvitað ekkert annað en fullkomin niðurlæging fyrir okkur Íslendinga. Ég ætla að fara yfir það í stuttu máli hvernig hvert einasta atriði sem máli skiptir í lausn þessa máls endar okkur í óhag.

Á síðasta ári mælti þáverandi hæstv. utanríkisráðherra fyrir þingsályktunartillögu og óskaði eftir umboði til að leiða til lykta viðræður við bresk og hollensk stjórnvöld um Icesave-deiluna. Þingið veitti það umboð með ákveðnum skilyrðum. Þessi sami fyrrverandi utanríkisráðherra, sem nú hefur vikið af vettvangi stjórnmálanna, er þeirrar skoðunar að núverandi ríkisstjórn hafi samið af sér. Sá ráðherra sem óskaði eftir umboði til þess að hefja viðræðurnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að menn hafi samið af sér, í hús sé kominn samningur sem sé allt annars eðlis en hún sá fyrir sér.

Ég var sjálfur þeirrar skoðunar í desember í fyrra að skynsamlegt væri að leita leiða til þess að leysa þennan ágreining. Sú staða var komin upp að hátt í 400.000 innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi stóðu frammi fyrir tjóni, stóðu frammi fyrir því að tapa að hluta til eða að mestu leyti innstæðum sínum á reikningum Landsbankans í þessum tveimur löndum. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með að slík staða veldur uppnámi í bankakerfi viðkomandi landa og reyndar á Evrópska efnahagssvæðinu öllu ef ekkert er að gert.

Við vitum líka hvaða andrúmsloft var á þeim tíma í Evrópu, sérstaklega í fjármálageiranum, þar sem bankar riðuðu til falls og ríkisstjórnir dældu inn tugum og jafnvel hundruðum milljarða til þess að bjarga bönkunum frá falli, allt gert til að auka traust innstæðueigenda og viðskiptavina bankanna á því að þeir mundu standa af sér storminn. Sannarlega voru þetta íslenskir bankar.

Fulltrúar stjórnarliðsins sem hafa talað í umræðunni í dag eru þeirrar skoðunar að við berum einhvers konar siðferðilega ábyrgð í þessu máli. Vegna þess að þetta voru íslenskir bankar hljótum við að þurfa að taka allan reikninginn, það eigi sem sagt að ríkisvæða tap einkabankanna. Það er dálítið merkilegt að það sé ein helsta forsendan fyrir niðurstöðu stjórnarliðanna í þessu máli, vegna þess að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði einmitt nýlega á fundi G20-ríkjanna að kollvarpa þyrfti regluverki bankakerfisins til að koma í veg fyrir það að fáir gætu hirt hagnaðinn af rekstri bankanna en almenningur sæti uppi með skuldirnar ef þeir færu á hausinn. Sá sem við eigum við að etja í þessu máli tefldi því sjónarmiði fram að það gengi ekki upp undir nokkrum kringumstæðum og væri ekki pólitískt sanngjarnt að skuldum fárra yrði dreift á almenning eins og orðið hefur í bankakrísunni. En það er akkúrat það sem hann fer fram á að verði gert í málinu og það sem ríkisstjórnin hefur skrifað undir. Það er akkúrat það sem hann krefst af okkur Íslendingum.

Við vitum líka að í Evrópu er verið að taka til endurskoðunar þá löggjöf sem deilan hvílir á, þ.e. löggjöfina um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta. Þar er verið að stórhækka tryggingamörkin. Mörg ríki í Evrópu gripu til þess ráðs að ganga í ríkisábyrgð fyrir rekstri heilu bankanna en nú er til skoðunar í Evrópusambandinu að auka tryggingavernd fyrir innstæður, bæði með því að hækka viðmiðunarmörkin og jafnvel taka til endurskoðunar þá einangrun sem háir einstökum tryggingakerfum, vegna þess að tryggingakerfið er ekki samtengt. Hinn augljósi galli í þessu máli er auðvitað gatið í Evrópulöggjöfinni, að ekki skuli vera samtrygging á milli tryggingarsjóða alls Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta látum við yfir okkur ganga.

Með þeirri niðurstöðu sem við höfum fjallað um í dag höfum við ekki einungis fallist á að hverfa frá upphaflegu markmiðunum um að taka þátt í lausn málsins og axla allar byrðarnar sjálf, heldur höfum við líka látið viðmælendur og viðsemjendur okkar þvinga okkur til fullkominnar uppgjafar um lagalegu fyrirvarana, þannig að algerlega er horfið frá því að við getum notið góðs af mögulegri lagalegri úrlausn dómstóla á ágreiningsefninu um það hvort yfir höfuð sé nokkur skylda fyrir ríkið að gangast í ábyrgð fyrir innstæðutryggingum einkabanka. Það er einhver mesta niðurlæging sem ég held að nokkurt ríki geti gengist undir, að afsala sér réttinum til að fá skorið úr um lagalegan ágreining. Í sjálfstæði og fullveldi hverrar þjóðar felst rétturinn til að standa á stöðu sinni, rétturinn til að fara fram á að ef tveir aðilar deila sé hægt að vísa þeim ágreiningi til þriðja aðila til úrlausnar. Sá sem gefur eftir þennan rétt hefur algerlega tapað sjálfsvirðingunni. Skrifar undir að þrátt fyrir að þessi réttur sé til staðar ætli menn ekki bara að greiða kröfuna að fullu heldur líka að afsala sér réttinum til að láta reyna á rétt sinn síðar.

Það má þó segja um fyrirvarana sem afgreiddir voru hér í sumar að samkvæmt þeim gat ríkið, eða Alþingi öllu heldur, takmarkað ríkisábyrgðina síðar í réttu hlutfalli og í samræmi við niðurstöðu dómstóla um þennan ágreining. Þar var alla vega búið að ganga þannig frá málunum, búa þannig um hnútana að þingið gat gripið inn í og sagt: Ja, nú hefur verið leyst úr ágreiningsefninu, nú ætlum við að takmarka ábyrgð okkar í samræmi við það. Nei, þennan rétt hafa menn gefið frá sér og ég fullyrði það hér að það er ekki til sú Evrópuþjóð önnur sem mundi gera slíkt hið sama. Það er engin Evrópuþjóð önnur sem menn geta bent mér á sem mundi fallast á það að gefa frá sér þennan grundvallarrétt sem er svo sjálfsagður í tilvist hvers fullvalda ríkis.

Ég vil stuttlega koma inn á málsmeðferð fjárlaganefndar og hef nú kannski ekki annað um hana að segja en að ég vil taka undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, sem mælti fyrir nefndaráliti 3. minni hluta, um að málsmeðferðin í fjárlaganefnd er auðvitað algerlega óásættanleg. Það er algerlega óásættanlegt að menn láti bara við það sitja að kalla til sín gesti og ræði síðan ekki málin. Málið sjálft var hvorki tekið til umfjöllunar, ekki var teflt fram nefndaráliti til skoðunar áður en málið var tekið út, né heldur voru tekin til umræðu þau nefndarálit sem óskað hafði verið sérstaklega eftir og þá vísa ég til þess sem kom frá efnahags- og skattanefnd. Málið var tekið út án þess. Það er auðvitað málsmeðferð sem er ekki þinginu samboðin og auðvitað ekki í neinu samræmi við mikilvægi og stærð málsins.

Enn þá berast ábendingar um gallann á þessu máli. Síðast í dag er í Fréttablaðinu grein eftir Sigurð Líndal lagaprófessor þar sem hann vekur athygli á því að uppi sé stjórnskipulegur vafi um það hvort heimilt sé að stjórnskipunarlögum að ganga frá málinu með þeim hætti sem hefur verið hér, þ.e. þar sem endanleg fjárhæð sem ríkið gengst í ábyrgð fyrir er fullkomlega óviss og varðar svo háar fjárhæðir að það getur mögulega stofnað fullveldi ríkisins í hættu. Þessa þætti hafa menn látið hjá líða að taka til skoðunar, svo ég nefni hér eitt dæmi um málsmeðferðina. Það er ekki bara að Sigurður Líndal hafi vakið athygli á þessu, frá því nýi Icesave-samningurinn kom fram á þinginu hafa fjölmargir aðrir hafa haft skoðun á honum. Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson prófessor skrifuðu grein í Morgunblaðið 31. október, þar sem þeir komast að þeirri meginniðurstöðu að nánast ekkert standi eftir af fyrirvörunum sem Alþingi samþykkti í sumar, það standi nánast ekkert eftir.

Það hefur mikið verið rætt um Ragnars Halls-ákvæðið sem svo er nefnt. Ég þekki engan betri heimildarmann um Ragnars Halls-ákvæðið en Ragnar H. Hall sjálfan. Hann hefur fyrir sitt leyti komist að þeirri niðurstöðu að sá fyrirvari sem við hann væri kenndur væri að engu orðinn. Hér má líka nefna fréttatilkynningu frá Indefence, sem var gefin út 2. nóvember 2009, en sá hópur hefur látið sig þessi mál varða nú í heilt ár, þar er sama niðurstaðan, allir fyrirvararnir hafa verið þynntir svo út að ekkert stendur eftir. Ekkert stendur eftir af þeim fyrirvörum sem settir voru hér á þinginu í sumar.

Síðan má auðvitað vekja sérstaka athygli á orðum fyrrverandi utanríkisráðherra, sem telur í fyrsta lagi að Íslendingar hafi gengið til samninganna eins og sakamenn og bresk stjórnvöld séu laus allra mála. Í öðru lagi að íslenska samninganefndin hafi ekki lagt nógu mikla áherslu á ábyrgð Breta og Evrópusambandsins, eins og ég vék reyndar að hér rétt áðan. Í þriðja lagi að ljóst sé að þessi deila sé öll til komin vegna þess að við vinnum samkvæmt meingölluðu direktívi frá Evrópusambandinu og að lokum að það gangi að sjálfsögðu ekki að ábyrgðin lendi öll á Íslendingum. Þessar yfirlýsingar fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, sem lagði í upphafi fram þingsályktunartillögu um að við gengjum til þessara viðræðna, þessar yfirlýsingar er ekki hægt að skilja öðruvísi en að hún sé þeirrar skoðunar að þetta frumvarp megi ekki samþykkja.

Mig langar líka til að víkja stuttlega að því hvernig lögin frá því í sumar voru staðfest. Hér hefur framsögumaður 3. minni hluta þegar lesið upp yfirlýsingu forseta Íslands, sem gefin var út 2. september. Það er auðvitað augljóst af þeirri yfirlýsingu að í fyrsta sinn skrifar forseti Íslands undir lög og staðfestir þau með sérstakri áritaðri tilvísun. Það var sögulegur áfangi hjá forsetaembættinu að þetta skyldi gerast, sérstök árituð vísun til fyrirvara Alþingis, sem eru tilteknir í þessari yfirlýsingu. Eins og ég hef rakið hér, stendur að mati sérfræðinga ekkert eftir af þessum sömu fyrirvörum, en mér sýnist fjárlaganefnd og ríkisstjórnin hafa algjörlega látið það undir höfuð leggjast að gæta að því atriði og velta því fyrir sér hvort nokkur hætta væri á því að forseti Íslands staðfesti mögulega ekki lögin. Reyndar er það nú þannig að þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn eru þeir sem tala hæst fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum um hitt og þetta. Kannski væri þeim þess vegna mjög að skapi að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langar til að vekja athygli á einum þætti málsins sem ekki hefur fengið nægilega athygli að mínu áliti. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur gert þann þátt að umtalsefni hér á þinginu, hann varðar gengisáhættuna í málinu. Þegar upphaflega var efnt til viðræðna við bresk og hollensk stjórnvöld var gengið út frá því að aðilar ætluðu að deila með sér byrðum. Ég vísa þar til hinna sameiginlegu viðmiða þar sem Íslendingum var lofað að ríkt tillit yrði tekið til íslenskra aðstæðna. Af þeirri ástæðu var um það rætt að þjóðirnar tvær mundu lána Íslendingum fjármuni til að rísa undir endurgeiðslunum og þessir fjármunir yrðu lánaðir innstæðutryggingarsjóðnum sem ríkið gengi síðan í ábyrgð fyrir. Nú þegar hefur komið fram að ekki stendur annað til boða í viðræðunum en að Íslendingar taki alla fjárhæðina að láni og greiði af henni fulla vexti, báðar þjóðirnar taki til sín vaxtaálag, er auðvitað ekki annað hægt en að spyrja sig hvers vegna í ósköpunum ekki hafi verið virkjað ákvæði 9. gr. laganna um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta þar sem segir, með leyfi forseta, í 1. mgr. 9. gr.:

„Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt.“

Hvers vegna í ósköpunum er verið að gera það í erlendri mynt fyrst menn þurfa að taka á sig allar byrðarnar í þessu máli? Ef þetta væri hluti af einhverju samkomulagi þar sem aðilarnir væru að dreifa á milli sín byrðunum gæti maður kannski skilið að það væri grundvöllur einhvers konar samkomulags þar sem báðir aðilar væru sáttir við að innstæðutryggingarsjóðurinn yrði fjármagnaður að hluta til í erlendri mynt. En þar sem niðurstaðan er sú að innstæðutryggingarsjóðurinn yrði að taka á sig alla fjárhæðina er ekki nema eðlilegt að maður velti fyrir sér hvað menn hafi verið að hugsa þegar þessi tiltekna grein var sett inn í lögin.

Hvers vegna skyldi löggjafinn hafa sett þetta ákvæði inn í lögin þegar lög nr. 98/1999 voru sett?

„Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt.“

Ætli það gæti hafa verið vegna þess að mögulega mundi myndast gjaldeyrisáhætta við endurgreiðslu á tryggingum hjá sjóðnum? Hvernig ætli sú staða liti út þegar tekin eru lán sem nema hálfri þjóðarframleiðslu Íslendinga, ætli það sé þá farið að skipta dálitlu máli? Nei, ekki að mati þessarar ríkisstjórnar. Hún er tilbúin til þess að fallast á allar kröfur viðsemjenda okkar, gefa frá sér réttinn til að láta reyna á málið fyrir dómstólum, greiða fulla vexti af fjárhæðinni og borga alla summuna í erlendum gjaldmiðlum. Nú hefur komið fram, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á í þinginu, að krafa innstæðutryggingarsjóðsins á bankann er bundin í íslenskum krónum en endurgreiðsluskylda innstæðutryggingarsjóðsins gagnvart Bretum og Hollendingum er gengistryggð. Það er því stórkostleg gengisáhætta í þessu máli fyrir sjóðinn, sem við ræðum hér um að veita ríkisábyrgð fyrir.

Fólk segir við mann að það sé komin þreyta í umræðuna um Icesave. Þetta er svo sorgleg staða, þetta er þyngra en tárum taki. Menn hafa samið af sér í öllum atriðum sem máli skipta. (ÁÞS: Það er ekkert annað.)

Hér hafa fyrri ræðumenn rætt dálítið um stöðu málsins gagnvart EFTA-dómstólnum. Það er allt rétt sem segir í áliti 3. minni hluta hér, það er líka niðurlægjandi fyrir okkur Íslendinga að hafa samið þannig við Breta og Hollendinga að Hæstiréttur geti þá einungis dæmt okkur Íslendingum í vil ef EFTA-dómstóllinn hefur fyrst leyft okkur að gera það. Eitt er að leita álits hjá EFTA-dómstólnum — eins og við mundum alltaf gera þegar uppi væru flókin álitaefni fyrir íslenskum dómstólum sem krefðust leiðsagnar eða leiðbeininga frá EFTA-dómstólnum. Stór álitaefni mundu fara þangað til ráðgefandi álits — en annað er að semja beinlínis um það fyrir fram að Hæstiréttur hafi ekki einu sinni svigrúm að fengnu því áliti. Hvers konar dæmalaus vitleysa er þetta? Þannig hefur verið samið í þessu máli. Hæstiréttur getur einungis dæmt okkur í vil varðandi ákvæði Ragnars Halls ef EFTA-dómstóllinn hefur gefið okkur leyfi til þess. Hæstv. ríkisstjórn leggur til að við samþykkjum þetta á þinginu. Þetta er ein ástæða þess að ég segi að niðurstaðan er niðurlægjandi fyrir okkur.

Ég vék að því í upphafi máls míns að ég teldi sorglegt að ríkisstjórnin hefði kosið að gera þetta mál að pólitísku bitbeini, mál sem á ekki að þurfa að snúast um átök milli núverandi og fyrri ríkisstjórna. Þetta mál á ekki að snúast um uppgjör Vinstri grænna við einkavæðingu bankakerfisins. Þetta mál á að snúast um hagsmunagæslu okkar allra. Við erum öll í sama bátnum. Það er ekkert annað sem vakir fyrir þeim sem tala fyrir því að við þurfum að ná betri niðurstöðu í þetta mál og hafna pólitískum afarkostum. Það er ekkert annað sem vakir fyrir þeim en að gæta hagsmuna almennings í þessu landi. Það er ekki þátttaka í neins konar pólitísku uppgjöri við fortíðina. Með því er ekki verið að reyna að svara ásökunum ríkisstjórnarinnar um að á fyrri stigum málsins hafi verið gerð mistök, það er bara hrein hagsmunagæsla fyrir íslenska skattgreiðendur sem býr þar að baki. Þess vegna er óskiljanlegt að menn skuli ekki geta sammælst um þann málstað sem tryggir hagsmuni íslensku skattgreiðendanna sem best.

Maður verður víst að gefa sér að ríkisstjórnin trúi því að þessi niðurstaða sé okkur raunverulega fyrir bestu. Þá er það auðvitað dapurlegt, eins og ég vék að áðan, að fulltrúar hennar skuli ekki koma hingað og segja: Við höfum unnið baki brotnu í þessu máli, við leggjum til þessa niðurstöðu, þetta er sú niðurstaða sem við mælum með, með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Nei, það er ekki það sem við fáum að heyra í þingsölum, þvert á móti. Stjórnarliðar koma hingað hver á fætur öðrum og vísa ábyrgð á þessu máli á einhverja aðra og segja þetta vera niðurstöðu aðgerða sem aðilar sem komu að málinu á fyrri stigum hafi gripið til.

Ég hef heyrt því haldið fram í umræðunni í dag að það hafi verið ömurleg ákvörðun að hefja viðræðurnar. Hvers konar vitleysa er þetta? Hvers konar þvæla er það sem maður heyrir frá hv. þm. Atla Gíslasyni og Birni Vali Gíslasyni, bæði í dag og undanfarna daga, að það hafi verið sorgleg mistök að hefja viðræður. Það er sjálfsagt mál að hefja viðræður. Það lýsti vilja íslensku þjóðarinnar til að koma að lausn þessa máls en það er ekki það sama og að menn séu tilbúnir til að leggja niður vopnin og fallast á fullkominn ósigur.

Ég tel það mikil mistök strax í upphafi þessa árs að kalla ekki Evrópusambandið að borðinu þegar í ljós kom að Bretar og Hollendingar ætluðu ekki að ná samkomulagi sem var ásættanlegt fyrir okkur Íslendinga í þessu máli. Það voru mistök að leiða forusturíkjum Evrópusambandsins það ekki fyrir sjónir að það stefndi í óefni við þessar viðræður og að af því gæti hlotist tjón fyrir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, samskipti EFTA-ríkjanna við ESB-ríkin, mikið tjón fyrir íslenskan almenning og það gæti haft áhrif á evrópskt bankakerfi.

Ég hef ekki minnst sérstaklega á hagsmunagæslu íslensku ríkisstjórnarinnar gagnvart öðrum ríkjum, hvernig haldið hefur verið á málunum gagnvart þeim ríkjum sem eiga t.d. fulltrúa í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég hef hins vegar rekið mig á það undanfarna mánuði að þau ríki hafa ekki hugmynd um hver málstaður íslenska ríkisins er. Það var einkennileg upplifun þegar ég hreyfði andmælum á Norðurlandaráðsþingi fyrir skemmstu þar sem saman voru komnir forsætisráðherrar allra Norðurlandaríkjanna. Íslenskir vinstri menn tóku það sem persónulega árás á sig að gerðar væru athugasemdir við forsætisráðherra Norðurlandanna um að þeir skyldu hafa gert það að skilyrði fyrir fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að lausn yrði fundin á þessu máli. Það upplifðu íslenskir vinstri menn sem árás á sig vegna þess að það er bara eitt sem er þeim heilagt, það höfum við séð í Evrópusambandsmálinu og það höfum við séð í Icesave-málinu, það er líf vinstri stjórnarinnar.

Ég ætla t.d. að rifja eitt upp hér. Í 1. umr. um frumvarpið sem kom fram á þinginu í sumar kom þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra hingað og sagði sem svo: Ja, nú skulum við koma saman, þingheimur allur, og vinna að lausn þessa máls, taka höndum saman um að búa þannig um hnútana að það fáist viðunandi niðurstaða í þetta mál. Hann lýsti miklum efasemdum um að það væri kominn ásættanlegur samningur fyrir hagsmuni okkar en tók fram um leið að ef stjórnarandstaðan ætlaði að haga sér þannig að líf ríkisstjórnarinnar væri í hættu þýddi ekkert að tala við hann um þetta mál eða reyna að ná samningum á nokkurn hátt. Ég fór í andsvar við hv. þingmann, þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, og sagði að fyrir mér liti það þannig út að hann væri með 600–800 milljarða kr. verðmiða á ríkisstjórninni vegna þess að hann væri tilbúinn til að fallast á samninginn ef líf ríkisstjórnarinnar væri í hættu, en ef hægt væri að gera breytingar á málinu vildi hann það fyrst og fremst. Hvað kemur nú í ljós? Sá hv. þingmaður, sem hefur reyndar verið með sterkust bein allra í stjórnarliðinu í gegnum þetta mál, hefur nú sagt af sér ráðherradómi og er enn ekki búinn að gera upp hug sinn. Hvers vegna skyldi sá maður ekki hafa gert upp hug sinn sem hefur haft svona sterkar skoðanir allan þennan tíma á þessu stóra máli, nú þegar málið er komið í þennan búning þar sem búið er að vatna út alla fyrirvarana? Hvers vegna skyldu aðrir þeir sem mesta fyrirvara höfðu við málið í heild sinni fyrr í sumar og í haust ekki vilja gefa upp afstöðu sína? Jú, það er þetta eina stóra mál sem öllu skiptir og allt þeirra líf snýst um, þ.e. líf ríkisstjórnarinnar.

Við í stjórnarandstöðu erum tilbúin til að stíga hér upp og höfum reyndar margoft gert og sagt: Þetta mál snýst ekkert um líf ríkisstjórnarinnar. Þið eruð búin að tala ykkur í þá stöðu sjálf að ef málið fellur ætlið þið að fara frá. Það er ekki krafa okkar. Fyrir alla muni, ef þetta snýst bara um það að ríkisstjórnin lifi af þennan samning skulum við vera sammála um að hafna þessum pólitísku afarkostum. Reyndar tel ég að ríkisstjórn sem hefur haldið á málinu eins og gert hefur verið í þessu tilviki eigi sér ekki neitt sérstaklega bjarta framtíð, þetta er ekki góður vitnisburður um það sem koma skal.

Það er dapurlegt að sjá það gerast aftur og aftur í þingstörfunum að þingmenn víkja frá sannfæringu sinni til að halda lífi í ríkisstjórninni og það gætu menn svo sem gert ef undir væru einhver minni háttar mál sem snertu ekki mjög við djúpri sannfæringu viðkomandi þingmanna. En hér erum við að tala um að veita ríkisábyrgð fyrir hálfri þjóðarframleiðslunni. Hér erum við að tala um að víkja frá sjálfsögðum grundvallarrétti sjálfstæðrar þjóðar um að fá skorið úr um ágreining. Hér erum við að tala um það að vatna út sjálfstæði íslenskra dómstóla gagnvart EFTA-dómstólunum. Hér erum við að tala um að taka á okkur byrðar sem við sjálf teljum okkur ekki einu sinni bera skyldu til að taka á okkur.

Hvað segir annars í 2. gr. þessa frumvarps? Er það ekki rétt munað hjá mér að í 2. gr. frumvarpsins segi að Íslendingar telji sig ekki bera lagalega skyldu til að taka á sig þessar byrðar? Hvernig getur maður fundið meiri þversögn en þá að setja inn í sama málið ályktun um að viðkomandi telji sig ekki hafa neina lagalega skyldu til að gera það sem hann er krafinn um en hann ætli engu að síður að gera það? Og hvernig má það vera að menn haldi því fram að það sé gott fyrir íslenska hagsmuni að ákvæðið sé þarna inni?

Setjið ykkur í stöðu dómara sem fær málið til úrlausnar í einhverri mögulegri framtíð. Hann sér mál sem sá sem sækir réttinn hefur tekið alveg sérstaklega fram að hann telji sig enga skyldu bera til að taka á sig byrðarnar — en ætli engu að síður að gera það. Ætli dómaranum finnist sá hafa sterka stöðu? Ætli hann mundi ekki bara segja sem svo: Ja, þú gekkst að þessum samningi með opin augun, þú tókst það meira að segja sérstaklega fram að þú teldir þig enga skyldu hafa til að taka byrðarnar á þig? Ætli það væri ekki betra að það stæði í lögunum: Þrátt fyrir að Íslendingar telji sig ekki bera neina skyldu til að veita ríkisábyrgð og vegna þess að mikið liggur við að málið verði klárað verður það gert að sinni en við áskiljum okkur allan rétt til að fá leiðréttingu á stöðu okkar síðar?

Það má halda því fram að sú hafi orðið niðurstaðan af starfi sumarþingsins. Það er alveg ábyggilegt að það er búið að vatna þá réttarstöðu út þannig að hún er einskis virði, eins og málið liggur núna fyrir þinginu.

Varðandi efnahagslegu fyrirvarana er það hlægilegur málflutningur sem maður heyrir frá talsmönnum stjórnarflokkanna að þeir fyrirvarar séu sterkir og standi. Menn koma hér upp og segja: Það stóð aldrei neitt annað til en að greiða lánið að fullu með vöxtum til baka. Menn ganga jafnvel svo langt að segja: Hver getur einhliða ákveðið að endurgreiða ekki lánsféð?

Þeir sem tala svona eru búnir að láta Breta og Hollendinga sannfæra sig um að við Íslendingar skuldum þeim peninga. Ef við nálgumst þetta mál þannig að það sé uppgjör á viðskiptaskuld, uppgjör á láni, er eðlilegt að menn spyrji sig: „Ja, verðum við ekki örugglega að greiða lánið til baka?“ Þetta mál er ekki þannig mál. Þetta er ekki uppgjör á neinni viðskiptaskuld. Það er verið að leiða í jörð ágreining sem er pólitísks eðlis. Þetta mál snýst um það hvort ríkin sem að því koma geti sammælst um að ljúka því þannig að allir komi sæmilega sáttir frá borðum. Það er löngu orðið ljóst að viðmælendur okkar í þessu máli hafa engan áhuga á slíkri lausn. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að við eigum að láta reyna á réttarstöðu okkar og það getum við vel gert.

Það er rangt sem sagt er hér í umræðunni að það séu engir valkostir til að láta reyna á réttarstöðu okkar Íslendinga. Það er auðvitað yfirgengilegt að það komi fram í viðræðunum og frumvarpinu sem hér liggur fyrir að viðmælendur okkar treysti ekki íslenskum dómstólum. Eitt er að vaða yfir okkur með kjörin á lánunum, eitt er að taka okkur í gíslingu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eitt er að beita okkur hryðjuverkalögum. Eitt er að fá öll hin Evrópusambandsríkin í lið með sér gegn smáríkinu Íslandi, eitt er að sannfæra Norðurlandaþjóðirnar, allar frændþjóðir okkar, til að standa með Evrópu en ekki með Íslandi — en að ganga svona langt er of mikið. Það er einfaldlega of langt gengið.

Ég hef hér í stuttu máli farið yfir það í fyrsta lagi að mér þyki málsmeðferð þingsins á þessu stóra máli ekki vera okkur til sóma. Í öðru lagi er það afdráttarlaus niðurstaða mín að það sé búið að gera að engu alla fyrirvarana frá því í sumar, einn hef ég ekki nefnt sem er þessi efnahagslegi fyrirvari, ég minntist rétt á hann hér áðan, að halda því fram að hann haldi þegar okkur ber skylda til að greiða vextina að fullu. Það er málflutningur sem stenst enga skoðun. Ég hef fært fyrir því rök að fyrirvararnir frá því í sumar haldi ekki og við séum í raun og veru komin langleiðina aftur til upphaflega Icesave-samningsins sem öll íslenska þjóðin og þingið voru sammála um að væri ómögulegur samningur. Ég hef vísað til margra fræðimanna um þá niðurstöðu. Ég hef vakið athygli á því að hvað sem líður þessum blessuðu fyrirvörum sé lítillækkandi fyrir okkur Íslendinga að sitja uppi með þessa stöðu. Og það er það.

Ég hef að lokum vakið athygli á því að við eigum annan valkost. Hvað sem menn halda, hvað sem er búið að fá menn til að trúa, eigum við að sjálfsögðu alltaf valkost. Við eigum þann valkost að segja einfaldlega við umheiminn að við viljum fá skorið úr um lagalega ágreininginn, við séum ósátt við niðurstöðuna, við sættum okkur ekki við að taka á okkur drápsklyfjar út af gallaðri Evrópulöggjöf. Eins og Gordon Brown segir sjálfur: „Við viljum ekki að skuldir einkaaðila verði ríkisvæddar.“ Það er málflutningur hans í dag. Við getum bara sent honum þann málflutning hans í yfirlýsingunni sem hann fær um þetta atriði.

Menn hafa gert allt of mikið úr afleiðingum þess að málið verði fært í þennan farveg og það er til dómstóll til að skera úr um þennan ágreining. Menn hafa bara gleymt því að tilboð okkar Íslendinga um að færa málið undir hlutlausan friðardómstól eða eftir atvikum gerðardóm var tilboð af okkar hálfu sem okkur bar engin skylda til að gera. Dómstóllinn sem fjallar um skuldbindingar innstæðutryggingarsjóðs fjárfesta á Íslandi er hérna fyrir aftan okkur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Svo tekur Hæstiréttur Íslands á málum sem áfrýjað er þaðan. Það eru þessi lög, það eru íslensk lög sem gilda um það hvernig eigi að standa að endurgreiðslum á þessum innstæðum.

Það er búið að gefa eftir mikilvæg ákvæði, eins og ég vék að áðan, um að við getum gert þetta allt upp í íslenskum krónum. Í stað þess sömdu menn um að taka alla fjárhæðina á sig sem gengisáhættu og þeir sem eiga óuppgerðar skuldir við íslenska innstæðutryggingarsjóðinn stefna honum í héraðsdómi, svo ratar það mál til Hæstaréttar. Að halda því fram að það að fara fram á dómsúrlausn á ágreiningi sé frekja og yfirgangur af okkar hálfu eru ný tíðindi í mínum eyrum, þá er heimurinn búinn að breytast mikið, þá erum við ekki sjálfstætt og fullvalda ríki. Við eigum að halda (Forseti hringir.) virðingu okkar og sæta ekki afarkostum sem aðrar þjóðir ætla að setja okkur. Okkur hefur farnast best (Forseti hringir.) þegar við höfum staðið á rétti okkar í sögunni.