138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki á hverju ég á von frá þingmönnum Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna í þessu máli, ég verð að svara seinni spurningunni á þann hátt.

Varðandi minnisblaðið er mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga stöðuna sem uppi var á þeim tíma sem minnisblaðið var gert. Þá höfðu staðið yfir viðræður á milli íslenskra og hollenskra stjórnvalda um að láta eignirnar ganga upp á móti þessum skuldum og að íslenska ríkið tæki lán til að fjármagna þessa hluti og menn höfðu væntingar um að eignir Landsbankans mundu að mestu leyti standa undir öllum þeim skuldbindingum sem ríkið væri að taka á sig.

Sjáið t.d. meirihlutaálit utanríkismálanefndar frá því í desember í fyrra þar sem segir að menn eigi von á því að ríkið muni taka á sig með þessu byrðar sem nemi frá 0 kr. upp í að hámarki 150 milljarða. Nú er komið í ljós að vextirnir einir eru miklu hærri fjárhæð. Á þeim tíma höfðum við ekki fulla yfirsýn yfir þær skuldbindingar sem við vorum að fjalla um.

Um minnisblaðið að öðru leyti og þetta með vexti OECD er nokkuð sem ég hef heyrt, ég get ekki staðfest að það hafi verið viðmiðunin. Ég tel að það sem máli skipti varðandi minnisblaðið sé að þetta er einhvers konar grundvöllur að frekari viðræðum aðilanna. En það sem gerðist næst í málinu var að forsætisráðherra Íslands tilkynnti forsætisráðherra Hollands að þetta gæti ekki orðið grundvöllur frekari viðræðna um lausn málsins. Síðan komu hin sameiginlegu viðmið sem núllstilltu samningaferlið og gerðu þetta minnisblað að sögulegu plaggi sem enga þýðingu hafði lengur. Það finnst mér mestu skipta.

Í millitíðinni höfum við síðan komist að því að eignirnar duga væntanlega ekki fyrir öllum skuldbindingunum og með þessu sjö ára vaxtaplani stefnir í að íslenska ríkið sé að taka á sig byrðar (Forseti hringir.) þar sem vextirnir af lánunum vega líklega þyngst.