138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisábyrgðargjald — ég tók eftir því að í áliti minni hluta í efnahags- og skattanefnd, held ég að hafi verið, kemur fram sú hugmynd að rétt væri að taka upp ríkisábyrgðargjald eins og gert er þegar veitt er ríkisábyrgð. Jú, af hverju ekki, af hverju gerum við það ekki? Það er einfaldlega vegna þess að við höfum ekki dug í okkur til að semja um það við Breta og Hollendinga eða gera það að skilyrði. Þess vegna er það ekki gert.

Auðvitað er hann óeðlilegur sá vaxtamunur sem virðist vera á þeim lánum sem Bretar og Hollendingar eru að taka til að lána okkur. Ég vil bara leyfa mér að kalla þetta hermang. Þeir eru hreinlega að næla sér í fjármuni á okkar kostnað. Auðvitað hafa þeir einhvern kostnað af því að taka þessi lán og eitthvað slíkt en að það sé sá munur sem þarna um ræðir gengur ekki upp. Getum við ekki alveg eins leyft þeim hreinlega að veiða eitthvað af þorski hjá okkur, hleypt þeim inn í lögsögu okkar til að veiða upp í þennan vaxtamun? Þetta er ... (Gripið fram í.) Já, þetta er mjög svipað. Við erum að borga kostnað og færa þarna fórn sem er ósanngjörn. Við mundum aldrei leyfa þessum aðilum að koma og veiða í lögsögu okkar og við munum aldrei leyfa þeim það af því við ætlum ekki að ganga í þetta Evrópusamband. Það er bara einfaldlega þannig og þess vegna munu þeir ekki koma í lögsögu okkar, en við ætlum hins vegar að fara að greiða þeim hér okurvexti. Það kom nú upp, svo ég rói mig nú aðeins, okurvaxtamál fyrir nokkuð mörgum árum á Íslandi og ég hefði haldið að sá tími væri liðinn, en því miður virðumst við ætla að láta það yfir okkur ganga að erlendar þjóðir beiti okkur slíkum brögðum. Þetta er ósanngjarnt, þetta er jafnfáránlegt, finnst mér, eins og að hleypa þeim inn í fiskveiðilögsöguna.